148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er margs að gæta þegar lög um lögheimili eru annars vegar. Ég tel brýnt að fara aðeins yfir það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Ég hef áður, í örstuttum andsvörum, komið aðeins inn á það er varðar börn og það stóra mál sem rætt hefur verið margsinnis í þjóðfélaginu, þ.e. rétt barna til að hafa tvöfalt lögheimili, lögheimili hjá báðum foreldrum.

Ef horft er á 1. gr. þessa frumvarps þá segir þar, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að réttri skráningu lögheimilis og aðseturs einstaklinga á hverjum tíma. Jafnframt er það markmið laganna að tryggja réttaröryggi í meðferð ágreiningsmála er varða skráningu lögheimilis.“

Ef við förum örlítið yfir þessi markmið laganna þá eru þau góðra gjalda verð ef farið er eftir lögunum. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja að einstaklingar séu skráðir til heimilis á þeim stað þar sem viðkomandi dvelur. Eins og kemur fram í 2. gr. frumvarpsins og svo sem í núgildandi lögum um lögheimili þá er lögheimili sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu.

Nú kemur einnig fram hér að ekki sé heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Með fastri búsetu á löggjafinn við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Ef maður veltir þessu fyrir sér, bæði markmiðum laganna og lögunum sjálfum, er augljóst að ákveðinn ómöguleiki er uppi, herra forseti, að fara eftir þessum lögum. Í dag er meginreglan sú á Íslandi og víða um Evrópu og á Norðurlöndum að foreldrar skuli fara saman með forsjá barna, að forsjá skuli vera sameiginleg. Þá hefur það jafnframt stóraukist á undanförnum árum að börn búi til jafns hjá báðum foreldrum og hefur það gengið bærilega að barn búi til jafns hjá báðum foreldrum og hefur foreldrum lukkast það nokkuð vel að reyna eftir fremsta megni að búa í slíku návígi hvort við annað að það komi ekki niður á vinahópum eða skólagöngu barna. Enda er það, að margir telja, ákveðið grundvallaratriði að barn geti lifað sínu hefðbundna lífi með vinum sínum og í skólanum sem þau eru í þrátt fyrir þessa tvöföldu búsetu.

Hvernig lítur þetta við lögunum og löggjafanum? Lögheimili skal vera sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Með fastri búsetu er átt við þar sem einstaklingurinn dvelst að jafnaði í tómstundum, þar sem einstaklingurinn hefur heimilismuni sína og þar sem svefnstaður hans er. Hvernig gengur þetta upp þegar barn býr algjörlega til jafns hjá báðum foreldrum sínum? Það er augljóst að foreldrar barns sem hafa barnið jafnt hjá sér eru þá að fremja lögbrot á hverjum einasta degi með því að skrá barnið ekki til skiptis hvort á sínum stað.

Ef við horfum aðeins frekar á þessi lög þá sést í frumvarpinu, í 17. gr., að þar er refsiákvæði. Ég ætla að fá að lesa það upp, með leyfi forseta:

„Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.“

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig löggjafinn sér það fyrir sér að haga þessu þegar börn eru annars vegar, af því að þarna er augljóslega ekki verið að fara eftir lögunum hvað varðar börn sem dvelja til jafns á tveimur stöðum. Þar ákveður löggjafinn, og löggjafinn hlýtur alltaf að endurspegla samfélagið og það sem er að gerast í okkar góða samfélagi, að byggja á einhverjum ómöguleika í sínum skrifum, að það sé óheimilt, það sé ekki heimilt að eiga lögheimili á fleiri en einum stað í einu. Hvernig má það vera þegar raunveruleikinn er allt annar? Raunveruleiki íslenskra barna og barna víða um heim er sá að þau búa á tveimur stöðum.

Það hefur líka sýnt sig, herra forseti, að það er gott fyrir börn. Það er gott fyrir börn sem eiga foreldra sem hafa ákveðið að búa ekki saman að finna að foreldrarnir geta þó alla vega sammælst um að vinna saman að uppeldi barnanna.

Hvaða máli skiptir þetta, herra forseti? Jú, það skiptir töluverðu máli hvar barn er skráð með lögheimili.

Í a-lið 28. gr. barnalaga segir einmitt um inntak sameiginlegrar forsjár að foreldrar sem fara saman með forsjá barns skuli taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn.

Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem hvar það skuli eiga lögheimili innan lands, þ.e. foreldri má flytja hvert sem er innan lands, úr skólahverfinu sem áður hafði verið samkomulag foreldra, val um leikskóla, val um grunnskóla, val um daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, reglubundið tómstundastarf og hvaðeina. Allt þetta getur lögheimilisforeldrið í krafti þess valds ákveðið að taka ákvörðun um.

Foreldrar sem fara saman með forsjá skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta. En það er samt sem áður þannig að þetta býr óhjákvæmilega til algjört valdaójafnvægi milli þessara einstaklinga, þessara foreldra, sem hafa tekið ákvörðun um að standa saman að uppeldi barna sinna. Þetta er ekki vegna ómöguleika foreldranna, að þau geti ekki staðið saman að uppeldinu, heldur vegna þess að kerfið, löggjafinn, hefur ákveðið að þetta sé ómögulegt.

Í störfum mínum sem lögmaður hef ég fengist mjög mikið við þessi mál. Ég hef árum saman fundið hversu mikla kergju þessi staða getur skapað, sú staða að annað foreldrið hafi svona mikið vald yfir öllu er varðar barnið, alveg sama þó að barnið búi til jafns hjá báðum foreldrum. Þetta býr til ójafnræði og það er oft þannig að sá sem valdið hefur freistast til að sýna minni samvinnutilhneigingu en ella, vegna þess einfaldlega að viðkomandi veit að hann hefur valdið til að taka allar þær ákvarðanir sem máli skipta í málefnum barnsins.

Hvað varðar barnabætur, sem oft er fjallað um þegar um tvöfalt lögheimili barns er að ræða, skiptir það nú sífellt minna máli, einfaldlega vegna þess að barnabætur hafa verið skertar umtalsvert á undanförnum árum og sárafáir sem njóta barnabóta. Engu að síður koma ýmis önnur atriði við sögu, t.d. er varðar námsmenn, húsaleigubætur og þess háttar sem skiptir máli þegar menn þurfa að halda fullt heimili fyrir öll börnin sín þó að það sé eingöngu helminginn af tímanum.

Það eru fleiri ákvæði í þessu frumvarpi sem mig langar aðeins að velta upp. Í 5. gr. er talað um lögheimili hjóna og skráða sambúð. Þar er talað um að hjón skuli eiga sama lögheimili, hjónum sé þó heimilt að skrá það hvort á sínum stað. Maður veltir fyrir sér, og hefði nú verið gott að hafa íslenskufræðinginn og málspekinginn, hv. þm. Guðmund Andra Thorsson, hér nálægt til að velta því fyrir sér hvernig þetta stenst svona samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. að hjón eigi að hafa lögheimili á sama stað en þeim sé þó heimilt að skrá lögheimili sitt ekki á sama stað. Þetta er í einni og sömu línunni í frumvarpinu. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta stenst skoðun.

Mig langar líka að velta upp þeirri spurningu hvernig þetta horfir við þeim erlendu borgurum sem hingað koma og byggja leyfi sitt á hjúskap. Til þessa dags hefur það alfarið verið þannig að ef tveir einstaklingar flytjast tímabundið hvor í sitt sveitarfélagið eins og stundum þarf að gerast vegna starfa, eða ef annar einstaklingurinn þarf að flytja vegna náms á erlenda grundu tímabundið, missir hinn aðilinn án tafar dvalarleyfi sitt á Íslandi vegna þess að Útlendingastofnun og íslensk stjórnvöld líta svo á að menn geti ekki byggt leyfi sitt til dvalar á Íslandi á hjúskap nema hjón búi á sama stað. Þess vegna væri gaman að vita hvort ákvæði 5. gr., um heimild hjóna til þess að skrá lögheimili sitt hvort á sínum stað, eigi eingöngu við um íslenska ríkisborgara eða hvort þeir erlendu borgarar sem eru hér með dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, á grundvelli hjúskapar, geti einnig byggt á þessum lögum, eða hvort íslensk stjórnvöld muni áfram beita þeim vinnubrögðum að kippa dvalarleyfi þegar í stað af einstaklingi þegar hjón eru tímabundið með búsetu hvort á sínum stað.

Það getur nefnilega reynst erfitt fyrir einstaklinga að ætla að fara eftir öllum þessum lögum, sérstaklega lögheimilislögum, af því að í lögheimilislögum segir að maður eigi að hafa lögheimili á þeim stað þar sem hann hefur fasta búsetu, þar sem hann eyðir meiri hluta tímans. Það kemur líka fram hér í 2. mgr. 3. gr. að heimilt sé að skrá tímabundið lögheimili á skráðum áfangaheimilum, í starfsmannabúðum og sambærilegu húsnæði, enda sé fyrir hendi leyfi til reksturs starfseminnar.

Þá veltir maður líka fyrir sér varðandi þessa erlendu borgara hvernig fer með þá. Geta erlendir borgarar sem byggja dvalarleyfi sitt á hjúskap við íslenskan ríkisborgara, eða borgara sem hefur varanlegt dvalarleyfi á Ísland, farið og starfað og búið í starfsmannabúðum utan þess þéttbýlis- eða dreifbýlisstaðar sem viðkomandi býr á? Eða getur viðkomandi farið á áfangaheimili tímabundið og búið þannig fjarri heimili, fjölskyldu o.s.frv.? Það væri gott að vita af því að ég sé enga umfjöllun um það í greinargerðinni með þessu frumvarpi.

Ég læt þetta duga í bili um þetta annars athyglisverða frumvarp.