148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:50]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur við að það sé erfitt að koma í andsvör eftir jafn áhugaverða ræðu og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hélt hér á undan. En mér fannst þetta svolítið áhugaverður punktur sem hv. þingmaður kom inn á varðandi það hvernig við umgöngumst kennitöluna okkar. Nú vorum við hv. þingmaður einmitt í New York í Bandaríkjunum í síðustu viku að sækja kvennaþing Sameinuðu þjóðanna sem var virkilega áhugavert. Ég vil reyndar nýta tækifærið hér, með leyfi forseta, og hvetja þingheim og reyndar almenning allan að kynna sér þau erindi sem þar voru flutt. Það er hægt að gera með því að leita eftir CSW62 og þar er hægt að horfa á alla fyrirlestrana. Þeir voru margir hverjir mjög áhrifaríkir og reyndar svo áhrifaríkir að fundarstjórar voru farnir að fella tár. Ég mæli eindregið með því að skoða það. — En það er efni í aðra ræðu.

Mig langaði að koma inn á þetta af því að faðir minn stundaði það lengi vel, mér til mismikillar gleði sem barn, að neita að gefa upp kennitöluna sína þegar hann var að leigja vídeóspólu af því að kennitalan væri eitthvað sem ætti að sjálfsögðu ekki að gefa upp sér til gamans. Ástæðan fyrir því að ég nefndi þessa New York ferð sem við fórum í í síðustu viku er einmitt að í Bandaríkjunum er litið svo á að maður gefi aldrei upp kennitölu sína nema eitthvað mikið liggi við, það er litið á hana sem algert trúnaðarmál. Mig langaði svolítið að velta því upp í samtali við hv. þingmann: Hver heldur hann að sé ástæðan fyrir að þetta hafi þróast svona á Íslandi, að kennitalan sé eitthvað sem bara allir vita um og öllum er sama um? Eigum við ekki að umgangast hana af meiri virðingu?