148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er komin hingað til að fagna 5. gr. þessa frumvarps. Ég hef verið að hlusta á ræður hv. þingmanna um frumvarpið og auðvitað er það um fleira en að hjón geti átt lögheimili hvort á sínum staðnum. Ég tek undir að það vantar grein sem fjallar um tvöfalt lögheimili barna. Ég geri ráð fyrir að hv. allsherjar- og menntamálanefnd muni taka þetta allt saman til skoðunar.

Ég var fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu sem samþykkt var 7. september árið 2016. Meðflutningsmenn voru þingmenn allra flokka sem sátu á þingi þá. Tillagan hljóðaði svona:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að setja á fót starfshóp sem undirbúi endurskoðun laga um lögheimili, nr. 21/1990, með það að markmiði að hjónum verði gert fært að eiga lögheimili hvort á sínum staðnum, hvort heldur er þegar bæði hafa bækistöð innan lands eða þegar annað hefur bækistöð erlendis. Einnig verði lagðar til breytingar á öðrum lögum sem þarf að breyta til að markmiðinu verði náð.“

Síðan var ráðherra falið að leggja fram frumvarp á Alþingi sem byggt væri á þessum tillögum starfshópsins.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að gildandi lög um lögheimili tóku gildi 1. janúar 1991. Frumvarp til þeirra var samið af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði í maí 1985 að ósk Hagstofu Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem talið var að þörf væri á að endurskoða þágildandi lög um lögheimili sem höfðu verið í gildi allt frá árinu 1960.

Helstu ástæður þess að ráðist var í endurskoðunina voru að breyttar þjóðfélagsaðstæður, svo sem sambýlis- og búsetuhættir manna, kölluðu á að lagaumhverfinu yrði breytt til samræmis við þær. Lög um lögheimili hafa um þessar mundir haldið gildi sínu í 27 ár. Á þeim tíma hafa ekki síður átt sér stað breytingar á þjóðfélagsaðstæðum, enda hefur þjóðin gerst aðili að EES-samningnum, netvæðst og upplifað bankahrun svo að fátt eitt sé nefnt.

Í greinargerð um 5. gr. í frumvarpinu kemur auk þess fram að aukin atvinnuþátttaka kvenna, jafnréttissjónarmið, ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu, alþjóðavæðing og ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæði um fjórfrelsið, einkum um frjálsa fólksflutninga og frjálsa flutninga launþega, styðji áðurgreinda breytingu, þ.e. þá breytingu að hjón megi eiga lögheimili hvort á sínum stað. Er það sömuleiðis ekki talið samrýmast ákvæði 65. gr. stjórnarskrár að skylda hjón til að eiga sameiginlegt lögheimili. Sennilega er þar átt við ákvæði 65. gr. þar sem stendur að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Eða 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar.

Tillaga þessi tekur auk þess mið af þingsályktun sem ég var að fara hér yfir áðan.

Það eru því rík rök fyrir því að taka upp þetta ákvæði. Eins og ég sagði hér áðan fagna ég því.

Síðustu ár hefur nokkuð borið á því að fólk hafi lent í vandræðum vegna ákvæðis 7. gr. laganna þar sem kveðið er á um að hjón eigi sama lögheimili, þ.e. 7. gr. gildandi laga um lögheimili. Vinnuveitendur sem ráða til sín starfsfólk hafa stundum krafist þess að það skrái lögheimili sitt í því sveitarfélagi þar sem starfsemi vinnuveitandans á sér stað. Þær kröfur hafa gert að verkum að maki starfsmanns hefur þurft að flytja lögheimili sitt til sama sveitarfélags þrátt fyrir að bækistöð hans sé í raun í öðru sveitarfélagi og jafnvel slíta samvistum við starfsmann. Þessar kringumstæður letja maka starfsmannsins einnig til að ganga í hjónaband með honum. Þannig að þó að algengast sé auðvitað að hjón eigi lögheimili á sama stað færist það í vöxt að það valdi vandræðum að ekki sé möguleiki á því að hjón eigi lögheimili hvort á sínum stað.

Auk þess var það þannig að í kjölfar bankahrunsins var nokkuð um að Íslendingar leituðu sér að vinnu í Noregi. Í sumum löndum er þess krafist að þeir sem ætla sér að sinna atvinnu innan landamæra þeirra flytji lögheimili sitt þangað. Í raun voru lögin bara brotin, ef svo má segja, þegar ákveðið var að leyfa fólki í þessari stöðu, hjónum í þessari stöðu, að eiga lögheimili hvort á sínum staðnum á grundvelli óskráðrar réttarheimildar.

Þetta er afskaplega mikilvægt mál. En þegar þingsályktunartillagan, sem samþykkt var haustið 2016, var til umræðu og send til umsagnar kom m.a. umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar sagði, og er vitnað í stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2014–2018, um sambandið:

„[Það] skal beita sér fyrir því að heildarendurskoðun laga um lögheimili og laga um skráningu aðsetursskipta verði hraðað. Í þeirri vinnu verði lögð áhersla á að styrkja stöðu sveitarfélaga í skráningarferlinu og draga úr hættu á rangri eða ófullkominni aðsetursskráningu. Jafnframt verði tryggt að öll skilgreind lögheimili séu í samræmi við skipulag sveitarfélaga.“

Samband íslenskra sveitarfélaga lagði á það áherslu að það hefði kallað eftir þessari endurskoðun en hún hefði látið á sér standa. Með þessu frumvarpi yrðu einhver skref stigin þó að ekki væri komið til móts við allt sem kallað hefði verið eftir.

Sveitarfélögin eiga mjög ríka hagsmuni af því að vel sé staðið að íbúaskráningu. Það þarf alltaf að vera ljóst hvaða réttindi íbúar sveitarfélagsins geta gert kröfu um. Það á að forðast öll þessi gráu svæði sem hafa myndast með því að lögin eru hreinlega orðin úrelt.

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en verið glöð með að nú sé verið að setja í frumvarpsform það sem Alþingi samþykkti að fela hæstv. ráðherra að gera. Það fylgir eitt og annað með í frumvarpinu sem vandlega verður farið yfir í nefndinni. Eins og fram hefur komið í umræðum í dag vantar eitt og annað inn í, einkum og sér í lagi hvað varðar stöðu barna, að þau geti átt lögheimili hjá foreldrum sínum báðum á tveimur stöðum.