148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála.

389. mál
[16:27]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að fagna frumvarpinu í heild, sérstaklega því sem snýr að því, sem er náttúrlega meginmálið, að horfa til lengri tíma í áætlunargerð ríkisins og ekki síst þar sem endurskoðunartíminn er líka styttur. Ég held að þetta muni í grunninn skila miklu markvissari vinnu til lengri tíma litið og sömuleiðis skemmri tíma, ef svo má segja, með því að setja inn aðgerðaáætlun og fleira slíkt.

Frú forseti. Frumvarpið lofar um margt góðu. Hins vegar er eitt sem vekur athygli mína og mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í og það varðar þau ráð sem eru lögð til í byggða- og fjarskiptamálum. Mig langaði að spyrja út í það sem snýr að fjarskiptamálunum. Þar er gert ráð fyrir stjórn fjarskiptasjóðs sem muni hafa með fjárhagshliðina að gera, ef ég skil þetta rétt, verkefnisstjórnin er tekin af stjórn fjarskiptasjóðsins og sett í fjarskiptaráð sem á að vinna áætlunina í samræmi við vilja ráðherra o.s.frv. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri einfaldara — ef þetta snýst, sem mig grunar, um skipan fjarskiptaráðsins, þ.e. að ráðherra hafi fulltrúa sína þar inni — að breyta stjórn fjarskiptasjóðs og vera áfram með verkefnisstjórnina þar inni, eða leggja niður stjórn fjarskiptasjóðs. Gerir þetta mögulega stjórn fjarskiptasjóðs óþarfa?