148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[16:35]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjarskipti. Frumvarpinu er ætlað að innleiða tvær gerðir Evrópusambandsins. Annars vegar er um að ræða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins frá árinu 2015/2120/EB frá 25. nóvember 2015 um ráðstafanir varðandi opinn netaðgang og um breytingu á tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu og reglugerð nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum innan sambandsins.

Oftast er vísað til reglugerðarinnar sem TSM-reglugerðarinnar en TSM stendur fyrir, með leyfi forseta, „Telecoms Single Market“ á ensku. Hins vegar er um að ræða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/53/ESB frá 16. apríl 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða þráðlausan fjarskiptabúnað fram á markaði, en sú tilskipun er kölluð RED-tilskipunin.

Svo að unnt sé að innleiða þessar tvær Evrópureglugerðir sem stafa af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði fjarskipta í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið þarf að tryggja þeim lagastoð. Vegna þess eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Frumvarpið var unnið í tveimur áföngum. Annars vegar varðandi TSM-reglugerðina og hins vegar vegna RED-tilskipunarinnar. Til einföldunar er mælt fyrir þessum tveimur innleiðingum í einu frumvarpi í stað tveggja.

Virðulegi forseti. Fyrst mun ég gera grein fyrir TSM-reglugerðinni. 2. og 3. gr. frumvarpsins fela í sér breytingar á 24. og 41. gr. laga um fjarskipti. Ákvæðunum er ætlað að tryggja lagastoð vegna innleiðingar á TSM-reglugerðinni að því er varðar nethlutleysi. Um er að ræða reglur sem eiga að stuðla að vernd hins opna internets. Reglur um nethlutleysi eru nýmæli. Hvergi í íslenskri löggjöf hefur verið fjallað um nethlutleysi en meginstef hugtaksins er fólgið í því að öll umferð um internetið skuli meðhöndluð á jafnræðisgrundvelli. Það á að stuðla að því að internetið verði áfram vettvangur óheftra boðskipta, nýsköpunar og viðskipta.

TSM-reglugerðin er óvenjuleg því að hún hefur að geyma ákvæði um tvö ólík efnisatriði, annars vegar nýjar heildstæðar reglur um nethlutleysi og hins vegar breytingar á einstökum ákvæðum í reglum um reiki. Ákvæðin um nethlutleysi eru orðuð með heildstæðum hætti, en ákvæðin sem varða reiki eru orðuð sem breytingarákvæði. Þau ákvæði reglugerðarinnar er varða reiki á fjarskiptanetum hafa þegar verið innleidd í íslenskan rétt með reglugerð ráðherra, nr. 558/2016, um breytingu á reglugerð nr. 1174/2012, um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins, en þar er um að ræða áframhaldandi reglugerðarsetningu í þeim málaflokki sem þegar á sér lagastoð í 35. gr. laga um fjarskipti. Eru lagabreytingar því óþarfar vegna reglna um reiki.

Vegna þessara tveggja ólíku efnisatriða er ekki fýsilegt að innleiða TSM-reglugerðina með heildstæðum hætti og ekki þykir þörf á að setja sérstök lög um nethlutleysi. Til að tryggja samhengi og skýrleika er talið best að innleiða ákvæði nethlutleysis í tengslum við skyld ákvæði í lögum um fjarskipti. Til að þetta falli að regluverkinu er talið fara best á að innleiða meginákvæði TSM-reglugerðarinnar um nethlutleysi í lögum um fjarskipti en setja lagastoð fyrir önnur ákvæði TSM-reglugerðarinnar svo að hægt verði að innleiða hana að fullu samkvæmt orðanna hljóðan með reglugerð ráðherra líkt og almennt tíðkast við innleiðingu Evrópureglugerða.

Frú forseti. Næst ætla ég að gera grein fyrir RED-tilskipuninni. Í 1. og 4.–8. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um fjarskipti nr. 81/2003 sem miði að því að innleiða reglur um CE-merkingar á fjarskiptabúnaði til samræmis við RED-tilskipunina. RED-tilskipunin er ný heildartilskipun og með henni er einnig felld úr gildi eldri tilskipun 1995/5/EB, svokölluð R&TTE-tilskipun um fjarskiptabúnað og endabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra. Helstu breytingar með frumvarpinu varða skyldur allra rekstraraðila, þ.e. framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar, sem og það nýmæli að brot þeirra gegn skyldum sínum geti varðað stjórnvaldssektum.

RED-tilskipuninni er ætlað að tryggja einsleitan markað fyrir þráðlausan fjarskiptabúnað með því að kveða á um ákveðnar lágmarkskröfur varðandi öryggi og heilsu manna og húsdýra, rafsegulsviðssamhæfi og hagnýta notkun tíðnisviðsins. Með henni á að auka markaðseftirlit, sér í lagi hvað varðar rekjanleika ábyrgðar framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Bannað verður að setja á markað og bjóða á markaði þráðlausan fjarskiptabúnað sem ekki hefur uppfyllt þær grunnkröfur sem settar eru fram í tilskipuninni, staðist samræmismat því til staðfestingar og verið merktur með CE-merkingu. Tilskipunin felur því jafnframt í sér ákveðna vernd fyrir notendur þráðlauss fjarskiptabúnaðar, hvað varðar heilsu þeirra, friðhelgi eignarréttar o.fl., sem og rétt þeirra sem neytenda þar sem tilskipunin kveður á um ítarlega upplýsingaskyldu rekstraraðila. Þá á CE-merkið að veita notanda búnaðarins vissu um að búnaðurinn uppfylli þær gæðakröfur sem til hans eru gerðar.

Í 1. gr. frumvarpsins er viðbót við orðskýringar 3. gr. laga um fjarskipti þar sem hugtakið þráðlaus fjarskiptabúnaður er skýrt. Þá eru í 4.–8. gr. frumvarpsins lagðar til fimm breytingar á XII. kafla laga um fjarskipti. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði 61. gr. laga um fjarskipti er varðar grunnkröfur þráðlauss fjarskiptabúnaðar verði breytt til samræmis við þær kröfur sem settar eru fram í RED-tilskipuninni. Þótt grunnkröfur búnaðarins séu sambærilegar þeim sem nú eru í gildi samkvæmt fjarskiptalögum er ljóst að umræddar kröfur ná nú einungis til þráðlauss fjarskiptabúnaðar en ekki línulegs búnaðar. Þá er grunnkröfum RED-tilskipunarinnar jafnframt ætlað að tryggja dýravernd og ná til sæmilegra fyrirsjáanlegra atvika.

Í öðru lagi eru gerðar breytingar á 65. gr. laganna sem nú mælir fyrir um viðurkenningu búnaðar og ákveðnar skyldur framleiðanda og umboðsmanns hans. Þar sem lagt er til að komi ný grein er kveður með ítarlegri hætti á um skyldur allra rekstraraðila, sem og að frekar verður kveðið á um þær skyldur í reglugerð, er lagt til að 65. gr. mæli fyrst og fremst fyrir um samræmi búnaðar og að óheimilt sé að setja hann á markað, bjóða hann á markaði eða taka í notkun án þess að hann uppfylli þær grunnkröfur sem til hans eru gerðar og hann fái CE-merkingu á grundvelli samræmismats.

Í þriðja lagi er lagt til að sett verði, eins og fram hefur komið, nýtt ákvæði 65. gr. a laga um fjarskipti er lýtur að skyldum rekstraraðila, þ.e. framleiðanda, innflytjanda og dreifingaraðila. Með RED-tilskipuninni eru settar fram ítarlegar skyldur hvers aðila. Er ljóst að nauðsynlegt er að setja í lög efnisákvæði sem kveður á um hverjar skyldur aðilanna eru enda varðar brot aðila gegn þeim viðurlögum.

Í fjórða lagi er lagt til að sett verði ítarlegra ákvæði í 67. gr. laga um fjarskipti um markaðseftirlit Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem stofnuninni er gert heimilt, að undangengnu mati á þráðlausum búnaði, að takmarka markaðssetningu og notkun hans af ástæðum sem tengjast almannaöryggi, -heilbrigði og almannahagsmunum jafnvel þótt hann uppfylli grunnkröfur tilskipunarinnar.

Í fimmta lagi er lagt til að nýtt reglugerðarákvæði verði sett í 66. gr. a laga um fjarskipti, þar sem kveðið er á um skyldu ráðherra til að setja reglugerð sem kveður frekar á um skyldur aðila, markaðseftirlit og viðurlög ásamt því að innleiða önnur efnisákvæði RED-tilskipunarinnar.

Að síðustu er rétt að vekja athygli á 9. gr. frumvarpsins en þar er nýtt ákvæði er varðar stjórnvaldssektir og lýtur það bæði að reglum um nethlutleysi og reglum um CE-merkingar á fjarskiptabúnaði.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frumvarpsins og Evrópugerðunum tveimur sem hér um ræðir og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.