148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[16:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem í fljótu bragði virðast fyrir hinum óvana lesanda snúast um óttalega lítilvægt tæknilegt atriði sem kannski skiptir ekki miklu máli. Raunin er sú að þetta mál skiptir gríðarlega miklu máli og er afskaplega jákvætt og reyndar orðið mjög þarft.

Á sínum tíma lögðu Píratar fram þingsályktunartillögu um jafnt aðgengi að internetinu sem fól í sér tvennt, annars vegar að efla netaðgang á landinu til allra og hins vegar að tryggja svokallað nethlutleysi. Á ensku er það kallað „net neutrality“. Þetta er eitt af þessum hugtökum sem tölvunördum heimsins hefur reynst erfitt að útskýra með viðunandi hætti hvers vegna sé svo mikilvægt.

Ástæða þess að þessi hugmynd er mikilvæg er að við notum internetið til meira eða minna allra verka nú til dags, persónulegra sem faglegra sem menntunarlegra. Við notum það úti um allt í okkar lífi þar sem við mögulega getum, og við getum það yfirleitt. Þannig að þegar einstaka fyrirtæki fá þá hugmynd að mismuna notkun, byggða á sínum eigin viðskiptahagsmunum, er hætt við að það hafi mjög alvarleg áhrif á rétt notandans til aðgengis að internetinu en sömuleiðis til að koma á fót sinni eigin þjónustu í jafnri samkeppni við aðra.

Nú legg ég fram dæmi. Það eru vefir sem eru afskaplega vinsælir í dag, svo sem Youtube og Google. Þetta eru mikilvægir vefir, þeir bjóða upp á ágætisþjónustu sem allir nota. En hvað ef manni dytti í hug að búa til nýjan vef? Hvað þá? Nú, þá vill maður auðvitað hafa sama aðgengi og aðrir þjónustuaðilar að internetinu. Maður vill geta hýst hann einhvers staðar, reynir að finna skástu nettenginguna og ágætishýsingu og býður svo þjónustu sína. Ef nethlutleysi er hins vegar ekki til staðar er hætt við að fyrirtæki fari að bjóða upp á að maður geti borgað aðeins meira til að fá betri aðgang, segjum að Youtube, maður fái betri aðgang að þeirri þjónustu sem sama fyrirtæki býður upp á, svo sem ef sama fyrirtæki býður upp á nettengingu sem býður upp á efni eða sína eigin netsjónvarpsstöð eða netútvarpsstöð eða hvaðeina.

Þetta myndi búa til afskaplega ólíkan vettvang fyrir mismunandi aðila, sérstaklega nýja aðila sem stefna ekki á að stjórna heiminum með markaðshlutdeild á tiltekinni þjónustu á netinu heldur vilja einfaldlega gera eitthvað samfélaginu til góðs. Kannski er eitt besta dæmið um þetta Wikipedia, fyrirbæri sem var sett á netið af áhugafólki og hefur verið keyrt alla tíð síðan og er alveg óheyrilega verðmætt fyrirbæri. En maður getur ímyndað sér: Hvað ef fyrirtæki hafa ekki áhuga á að Wikipedia sé vinsælt heldur eitthvað annað? Að það sé eitthvað annað sem auðveldara er að ná í? Þá er Wikipedia ekki með sama samkeppnisforskot.

Ég tek þetta bara sem dæmi af handahófi, um eitthvað sem ég veit að er upprunalega stofnað í hugmyndafræðilegum tilgangi og af hugsjón sem fólk kannast við, nefnilega Wikipedia.

Það er nefnilega þannig að þegar fyrirtæki fá að haga samkeppnisstöðu sinni sér í vil, lögum samkvæmt, þá gera þau það. Auðvitað gera þau það. Þess vegna er mikilvægt að við lítum á internetið ekki sem einhvern munað heldur sem grunnkerfi, eins og vatnsleiðslur eða rafmagnsleiðslur. Við myndum ekki sætta okkur við að ef maður ætlaði að fá rafmagnskapal heim til sín væri sagt: Jú, jú, þú borgar aðeins meira og þá ertu fljótari að hlaða sjónvarpið þitt eða bílinn þinn heldur en símann þinn eða eitthvað því um líkt. Við myndum ekki vilja hafa það þannig. Við viljum bara að rafmagnsleiðsla sé rafmagnsleiðsla, sé eins góð og mögulegt er, eins góð og fýsilegt er í það minnsta, en við viljum ekki að þessi grunnþjónusta sé á einhvern hátt háð því að það sé samræmi milli þess hvernig maður notar rafmagnið, hverju maður er að hlaða niður eða hvernig maður notar internetið eða hvað maður er að skoða, og viðskiptahagsmuna netveitunnar sem þú verslar við.

Hér eru góðar fréttir og slæmar fréttir. Slæmu fréttirnar eru þær að í Bandaríkjunum er núna manneskja sem heitir Donald Trump í forsetastól sem leggur í vana sinn að taka arfavitlausar ákvarðanir og segja arfavitlausa hluti eins og frægt er orðið. Því miður hefur nú orðið mikið bakslag í baráttunni fyrir nethlutleysi eða í vörninni fyrir nethlutleysi í Bandaríkjunum. Í desember á seinasta ári ákvað FCC, Federal Communications Commission, sem er væntanlega hvað, virðulegi forseti? Ég kann ekki að þýða þetta. FCC tók þá ákvörðun að afnema reglur um nethlutleysi þar í landi. Það er mjög, mjög slæmt. Á sama tíma eru góðu fréttirnar að við erum í EES, sem er gleðiefni í dag, vegna þess að í gegnum EES fáum við stundum vel útfærðar og góðar reglur, eins og t.d. hvað varðar reiki, eins og í þessu frumvarpi, og sömuleiðis hvað varðar nethlutleysi eins og í þessu frumvarpi.

Píratar hafa barist fyrir nethlutleysi frá því að við komum hingað á þing. Það var reyndar ein af ástæðum þess að við urðum til. Við höfðum áhyggjur af því þá og höfum áhyggjur af því í dag að yfirvöld skilji ekki afleiðingar gjörða sinna þegar þau taka ákvarðanir um tæknileg atriði. Og þegar tæknileg atriði varða meira eða minna allt sem samfélagið gerir er það frekar hættuleg staða. Og var það sennilega meira árið 2013 en hún er það enn þann dag í dag, enda eru Píratar enn þá til.

Þetta jafna aðgengi að internetinu eins og við kölluðum það þá og sumir kölluðu, og kalla, nethlutleysi, er ein af grunnstoðum þess að við getum talað í raun og veru um frjálst og opið internet. Eins og ég segi, slæmu fréttirnar koma frá Bandaríkjunum en þær góðu frá Evrópu. Og mér þykir ofboðslega vænt um að þetta 500 milljóna manna samfélag, sem er Evrópusambandið, hafi farið þessa braut í þessu tilfelli. Það ágæta samband gerir oft mistök eins og allar mannlegar stofnanir en það hefur staðið sig í þessu. Mér þykir það ofboðslega gleðilegt. Þess vegna er ofboðslega mikilvægt að við samþykkjum þetta frumvarp.

Hið sama má segja reyndar um persónuverndarlöggjöfina sem núna er nýkomin úr samráðsgátt ríkisstjórnarinnar sem við fjöllum um seinna og ég ætla ekki að fara yfir hér. En það leiðir mig yfir í annað atriði sem er kannski alltaf skylt þessum málum, varðar kannski ekki þetta mál efnislega í sjálfu sér nema bara með hliðsjón af því hvað þetta er ofboðslega mikilvægt. Það er að ég er ekki viss um að lýðveldið Ísland með sinn verðandi 350 þús. manna fjölda myndi standa fyrir jafn mikilvægum breytingum og réttarbótum fyrir borgarana í landinu og birtast t.d. í komandi persónuverndarlöggjöf og í þessu frumvarpi um nethlutleysi. Ég segi stundum við vini mína sem eru hvað mest á móti eða hafa hvað mestar efasemdir gagnvart Evrópusambandinu og jafnvel EES að ég þekki það af eigin raun, hafandi verið þingmaður frá 2013–2016 og núna frá 2017 til dagsins í dag, að hingað fáum við oft löggjöf og ég sit úti í sal og greiði atkvæði, iðulega grænt, oftast held ég, með þessum EES-málum, og hugsa með mér: Mikið erum við heppin að hafa aðgang að þessum faglega og vel unnu, almennilegu, vel gerðu frumvörpum. Það er ekki til að lasta frumvarpshöfunda á Íslandi. Það er bara það að við erum fámenn þjóð, erum með lítið ríkisvald, beinlínis fáa lögfræðinga, með fátt fólk í ráðuneytum og tilheyrandi stofnunum til að standa jafn faglega að svona málum og þörf er á. Við þurfum að vera í samstarfi við EES til þess að geta haldið í okkar réttindi á 21. öldinni að mínu mati. Ég held að það sé beinlínis nauðsynlegt. Ég held að réttindi Íslendinga væru miklu, miklu verri á meira eða minna allan hátt, ef ekki alveg allan, ef við værum ekki í EES, ef við hefðum ekki rænu á því að taka upp það sem vel er gert erlendis.

Mér finnst mikilvægt að við höldum þessu til haga því að við gleymum því stundum og látum eins og við séum bara hérna til að stimpla þessi frumvörp sem eru byggð á tilskipunum og hvaðeina, en það er í raun og veru ofboðslega mikilvægt að við höfum aðgang að öllu þessu lagafargani. Að því sögðu verð ég líka að taka undir að mér finnst stundum áhyggjuefni hvað við höfum litla burði til þess að fara í gegnum þetta allt saman. Við treystum ráðuneytunum til þess. Ég geri ráð fyrir að í meginatriðum standi þau sig í því, alla vega miða við mannskap og tíma og almenna burði.

Mér hefur oft fundist hérna á Alþingi að þegar við erum að fara með þessi mál höfum við ekki nægt næði til að fara almennilega yfir þau, hvað þá að reyna að breyta þeim eitthvað að ráði, enda erum við hluti af þessu samstarfi. En sem betur fer þegar þessi mál eru komin hingað inn er þegar búið að vinna þau afskaplega mikið. Eins og ég segi er þetta 500 milljóna manna samfélag og það er ekki eins og Evrópusambandið sé sammála um alla hluti. Alls ekki. En þegar það er sammála um svona hluti er ég ofboðslega feginn því að við séum í þessu nána samstarfi við Evrópu því að það er greinilegt hvaða stórsamfélag það er á elskulegu plánetunni okkar núna sem ætlar að vera leiðandi í vernd mannréttinda. Það er Evrópusambandið. Það birtist í frumvörpum eins og þessu og persónuverndarlögunum sem við erum að fara að taka upp.

Það er ekki þar með sagt að Evrópusambandið sé fullkomið. Langt í frá. En þetta skiptir máli. Við verðum að átta okkur á þessu, kannast við þetta, þannig að þegar þessi mál koma inn sem líta út fyrir að vera svona tæknileg og kannski leiðinleg í fljótu bragði, þá vitum við að þetta er ekki sjálfsagt. Frelsið er ekki sjálfsagt, réttindi okkar eru ekki sjálfsögð. Þau fást einungis ef það er nógu margt fólk sem ræður sem hefur áhuga á því að réttindi okkar séu vernduð og áhuga á að við búum við frjálst og opið internet, að við höfum persónulöggjöf sem raunverulega verndar persónur umfram fyrirtæki sem vilja nota persónuupplýsingar.

Að lokum langar mig til að mæla með því að fólk, áhorfendur, lesi eða hlusti á ágæta ræðu frá Smára McCarthy frá 3. apríl 2017 um sama efni, nethlutleysi. Það er erfitt að ýkja hversu mikilvægt þetta er. Ef ekki væri fyrir Evrópusambandið núna í sambandi við nethlutleysi væri framtíð internetsins bara afskaplega dimm, myrk. En við höfum von. Hún virðist liggja austan við ána í þessu tilfelli.