148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[16:57]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir að vekja athygli þingheims og vonandi almennings alls á því hversu mikilvægt mál þetta er. Ég verð að viðurkenna að þegar líða fór á seinni hluta ræðu hv. þingmanns fór mig að kitla svolítið að taka smáumræðu við hv. þingmann um að ganga í Evrópusambandið, hvort hagsmunum Íslendinga væri ekki best borgið þar. [Hlátur í þingsal.] Þar sem við hefðum raunveruleg áhrif, gætum haft meira um það að segja hvernig þetta væri og hefðum enn þá meira aðgengi að upplýsingum og öðru slíku.

En ég ætla að standast freistinguna. Ég ætla ekki að spyrja út í skoðanir hv. þingmanns á aðild Íslendinga að ESB heldur langar mig að velta því upp sem hv. þingmaður nefndi varðandi aðgengi Íslendinga að internetinu. Það er algert grundvallaratriði fyrir okkur í dag. Það væru náttúrlega stórkostlegar ýkjur hjá mér að segja að það sé næstum jafn mikilvægt og aðgengi að vatni, rafmagni o.s.frv. En ég velti fyrir mér hvort við eigum ekki að fara að líta á það sem nánast grundvallarmannréttindi að hafa aðgengi að háhraðainterneti og þar með öllum þeim upplýsingum sem liggja á netinu og þar með aðgengi almennings að upplýsingum. Því að í dag er það þannig að upplýsingarnar liggja á netinu og það er miklu erfiðara en nokkru sinni fyrr að nálgast þær annars staðar.

Verðum við ekki að horfa til þess í uppbyggingu, t.d. í samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og öðru slíku, að tryggja aðgengi almennings að internetinu?