148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli: Jú. Við verðum að tryggja aðgengi allra að internetinu og gott aðgengi líka, ekki er nóg að það sé stopult samband sem er bara stundum ef það er ekki nógu hraðvirkt. Til að nota það til að leysa úr læðingi sköpunarkraftinn og frelsið sem internetið veitir fólki þurfa tengingar að vera almennilegar. Það þarf að vera hægt að nota þær til þess að færa mikið magn gagna mjög hratt.

Einfalt og kannski augljóst dæmi væri myndsímar af landsbyggð í samskiptum við hið opinbera í Reykjavík. Bara svona sem frekar einfalt og augljóst dæmi. En hitt er síðan sem við verðum líka, að mínu mati, að fókusera enn meira á, það er hvaða réttindi við höfum á þessu neti. Því að ákveðin hætta er á að þegar við tölum um internetið fari fólk að hugsa sem svo að það séu nú bara einhverjar pípulagningar sem pípulagningameistarar þurfi að pæla í og svo þurfi hinn almenni borgari ekkert að pæla í því frekar.

En málið með internetið er að það er í raun og veru upplýsingatækni, bara mannleg samskipti með nútímatækni. Og varðar þess vegna allt okkar frelsi, öll okkar réttindi og skyldur sem varða mannleg samskipti. Sem einfalt dæmi: Í samskiptum við yfirvöld, hversu miklu máli skiptir það að ekki sé hlerað? Það skiptir öllu máli, alveg eins og þegar maður talar í trúnaði við lögreglumann um eitthvert brot sem hefur verið framið gagnvart honum. Tek það bara sem dæmi. Hversu miklu skiptir að maður hafir raunhæfan, raunverulegan, lagalegan rétt á að sækja sér upplýsingar, jafnvel ef einhverjum öðrum er illa við að maður sæki sér einhverja hættulega þekkingu? Það skiptir öllu máli. Þar komum við að tjáningarfrelsinu og upplýsingafrelsinu.

Það er ekki einungis rétturinn til að hafa internettengingu, sá réttur er mikilvægur, en hann er í grundvallaratriðum praktískur. Þegar kemur að mannréttindunum sjálfum verðum við að spyrja hvaða réttinda við ætlum að njóta og hvaða skyldur við ætlum að setja okkur undir á internetinu sjálfu þegar það er komin nógu góð tenging til að pæla í slíkum hlutum.