148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:25]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvar hans. Ég held að ég geti nálgast þessa spurningu hans með því að segja að það er þörf á því að við lítum á það hvernig við skilgreinum þennan markað vegna þess að við höfum mælingar, og fjarskiptasjóður styrkir mælingar á því, þar sem við mælum símamerki á þjóðvegum landsins og við eigum gott útbreiðslukort og við vitum nokkuð hvar skuggarnir eru og hvar er hægt að þétta þetta með fleiri sendum. Við höfum byggt upp sendakerfi á grunni öryggismála eða öryggi vegfarenda. Ég held að umræðan verði raunverulega að fara út í gegnum þessa þrjá farvegi, vegna öryggismála, vegna skilgreiningar markaðarins og síðan hversu langt við erum komin í útbreiðslunni.

Ég tel í raun og veru vera sérstaklega aðkallandi að við tökum þessa umræðu hér á landi því að nú styttist í það að við höfum bíla sem þurfa að vera nettengdir, gert hreinlega ráð fyrir því. Sumir kalla þetta sjálfkeyrandi bíla, en þeir eru í sjálfu sér miklu meira en það, þeir eru ökutæki sem er stýrt af tölvum í gegnum netið til þess að hámarka nýtingu á eldsneyti og hámarka öryggi í akstri og fleiri slíka þætti.

Ég beini því enn og aftur til nefndarinnar að fjalla kannski um málið með þessum hætti, því að það er virkilega vont að við höfum þessa skugga á þjóðveginum þegar við erum að flakka á milli símkerfa. Stundum er það eini kosturinn að vera bara með tvo síma í vasanum hvorn hjá sínu fjarskiptafyrirtækinu til þess að vera sem víðast í sambandi. Þetta er náttúrlega ekki hægt, virðulegi forseti.