148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:31]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að vekja athygli á því að hæstv. ráðherra virðist ekki vera lengur í salnum að hlusta á umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég ætla ekki að ganga svo langt að láta kalla eftir honum en mér þykir mjög óheppilegt að ráðherrar hlusti ekki á umræðu um þau mál sem þeir leggja fram. Ég verð hreinlega að gera athugasemd við að svo sé ekki.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á. Mig langar að byrja á reikinu sem er gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir neytendur í Evrópu og þar með Íslendinga af því að við erum svo heppin að hafa aðild að Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Það er gríðarlega mikill munur fyrir íslenska neytendur, sem eins og aðrir í heiminum ferðast meira og meira á hverju ári, að geta verið með farsímana sína og notað þá og nýtt þá, bæði í símtöl og vafra, hvar sem er í Evrópu á sama verði, þ.e. án þess að óttast gríðarháa símareikninga eins og eflaust margir Íslendingar hafa lent í að fá eftir t.d. skemmtilegar sólarlandaferðir.

Þetta mál er að mörgu leyti sambærilegt við það þegar gjaldskráin var jöfnuð milli landsvæða á Íslandi. Það er alveg ótrúlega stutt síðan það gerðist af því að þetta var ósanngjarn aðstöðumunur á milli svæða, sérstaklega fyrir landsvæði utan höfuðborgarsvæðisins sem þurftu t.d. að hringja í ríkisstofnanir og (Gripið fram í: Manst þú eftir því?) — ég nefnilega man eftir því, það er svo stutt síðan, sjáðu til. Ég mun aldrei samþykkja í þessum stól að ég sé orðin gömul.

Þetta er gríðarlega mikið hagsmunamál. Ég man mjög vel eftir því á sínum tíma að það að fá að hringja í ömmu og afa í Reykjavík var alls ekki sjálfsagt vegna kostnaðar og eins og með þetta mál er þetta gríðarlega mikil spurning um aðgengi. Pæling hv. þingmanna áðan um að vera e.t.v. með erlend símakort til að hafa aðgengi að símaþjónustu hér á landi er mjög áhugaverð. Staðreyndin er náttúrlega sú, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom inn í ræðustól fyrr í dag varðandi öryggi vega, að það er algjörlega óásættanlegt að á sama tíma og verstu vegirnir eru á Vestfjörðum er þar á sama tíma versta farsímasambandið sem þýðir að öryggi vegfarenda, íbúa þar og gesta þeirra, er stefnt í hættu, ekki eingöngu á þann hátt að vegirnir séu stórhættulegir heldur líka af því að ekki er hægt að hringja á aðstoð sem hlýtur að vera gríðarlega alvarlegt mál og nokkuð sem ég myndi mjög gjarnan vilja að ráðherra hlustaði á og tæki til sín.

Ég vona sannarlega að hann taki sér tíma til að hlusta á upptökuna og umræðuna hérna í dag og (Gripið fram í: Hlusta á þetta á netinu.) hlusta einmitt á þetta á netinu, þ.e. ef hann hefur aðgengi að því. Ég vona að hann hafi ekki farið mjög langt út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Þetta er nefnilega líka gríðarlega mikilvægt byggðamál. Eins og ég kom inn á í ræðu áðan skiptir okkur öllu máli að hafa aðgengi að internetinu og að fjarskiptum yfir höfuð. Ég geng svo langt að tengja það sömuleiðis við loftslagsmál af því að aðgengi að góðum tengingum gerir okkur kleift að eiga samskipti um allt land án þess að þurfa endilega að stíga upp í flugvél eða bíl og mæta á staðinn.

Ég tók það hér upp fyrir nokkrum vikum og vil nýta þetta tækifæri til að minna á þá ábendingu mína til hv. forsætisnefndar að tryggja aðgengi allra íbúa að nefndafundum. Nefndir kalla oft til sín sérfræðinga sem eru á eigin vegum en ekki á vegum einhverra stofnana, koma jafnvel fyrir fundi nefnda í 10–15 mínútur og gera sér ferð til Reykjavíkur á eigin kostnað vegna þess. Þá er augljóst mál að við eigum að tryggja fjarskipti inn á nefndasviðið þannig að það sé hægt að ræða við sérfræðinga sem sannarlega búa úti um allt land í gegnum einhvers konar fjarfundi. Það þarf ekki að vera flókið kerfi. Það er hægt að nota tækni sem allir hafa aðgang að, hvort sem er í tölvum sínum eða jafnvel farsímum, eins og Skype for business eða annað slíkt. Það hlýtur að vera hægt að finna leiðir til þess að gera það á einfaldan og aðgengilegan hátt. Ég ítreka beiðni mína til forsætisnefndar um að kanna það.

Til að draga málið saman snýst það um hagsmuni neytenda og öryggismál. Það snýst um byggðamál og síðast en ekki síst, og kannski mikilvægast eins og ég kom inn á áðan, öryggismál sem ég vona að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki einnig upp í tengslum við þetta, þ.e. að tryggja öryggi vegfarenda um land allt og aðgengi þeirra að farsímanetum.

Í því samhengi má líka nefna að eftir því sem ég best veit er ekki búið að leysa enn almennilega öryggismál sjófarenda eftir að NMT-kerfið var lagt niður og takmarka aðgengi þeirra að slíkum kerfum, eins og í kringum Hornstrandir. Það er margt sem þarf að huga að í þessu samhengi.