148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni andsvarið. Jú, það er af því að sjálfbærnihugtakið felst m.a. í því að við erum hér að greiða niður skuldir. Við erum að ná niður vaxtabyrði, það er augljóst. Það er jafnvægi milli tekna og gjalda og jákvæð afkoma öll árin í stefnu.

Það flokkast undir varfærni. Engar ákvarðanir sem teknar eru í þessari stefnu ógna stöðugleika. En stöðugleiki er auðvitað margvíslegur, það skal viðurkennt. Það er ákveðin festa í því að markmiðin eru mjög einföld. Þau eru skýr, þau eru tölusett og koma mjög augljóslega fram í stefnunni. Og eins og gagnsæið er skilgreint í lögum um opinber fjármál eru markmiðin sett fram með þeim hætti að þau dyljast engum.