148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eitt af grunngildum laga um opinber fjármál er gagnsæi. Gagnsæi felst í að sett séu auðsæ og mælanleg markmið til meðallangs tíma í samræmi við grunngildi og birta skal reglulega samanburð á markmiðum og árangri með skýrum mælikvörðum. Þetta eru skilgreiningar úr lögum um opinber fjármál.

Í ákvæði sem er merkt III í stefnunni er talað um: „Heildarútgjöld hins opinbera vaxa á árinu 2018 um 0,6% af VLF frá fyrra ári. Þróun á umfangi starfsemi hins opinbera út tímabilið verði með þeim hætti að það stuðli að efnahagslegum stöðugleika.“

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta ákvæði sé gagnsætt, og ef svo er, hvað eigi að gera ef mælikvarðar sýna að stöðugleikinn haldi ekki. Á að skera niður í heilbrigðisþjónustunni? Á að skera niður útgjöld eða á að hækka skatta eða á að gera hvort tveggja?