148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú kemur það ítrekað fram í umsögnum um fjármálastefnuna að óráðlegt sé á toppi hagsveiflunnar að lækka skatta og auka útgjöld. Það eru margar umsagnir sem fjalla um þetta vegna þess að það muni einmitt leiða til efnahagslegs óstöðugleika, eins og staðan er núna.

Það ákvæði sem ég spurði hv. þingmann um fjallar um umfang starfsemi hins opinbera. Og þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann aftur, þar sem ég fékk ekki svör við spurningu minni: Samræmist ákvæðið grunngildunum um gagnsæi? Hvað á að gera ef óstöðugleikinn fer úr böndunum, hvað á að gera? Á að hækka skatta en ekki lækka skatta, eins og stefna ríkisstjórnarinnar er? Eða á að draga úr útgjöldum en ekki auka þau, eins og stefna ríkisstjórnarinnar er?