148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ítrekaða spurningu. Þegar kemur að sköttum og auknum útgjöldum byggir þessi stefna á hagspá Hagstofunnar. Í síðustu spá í mars kemur fram að við erum búin að ná toppi hagsveiflunnar, í lok árs 2016. Við erum í kólnandi hagkerfi, þ.e. hagvöxtur er að minnka á sama tíma og mikil þörf er fyrir að byggja upp innviði.

Því er hér verið að reyna að gæta jafnvægis á milli tekna og gjalda og fara í innviðauppbygginguna sem allir flokkar töluðu um í kosningabaráttunni og þessi hæstv. ríkisstjórn hefur svo sannarlega sett fram með glöggum hætti hvernig á að fara í. Þess vegna teljum við ráðlegt að skila aðeins minni afkomu og fara í þessa uppbyggingu af því að við erum í kólnandi hagkerfi.