148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrir þinginu liggur frávísunartillaga, tillaga um að vísa þeirri fjármálastefnu sem við ræðum frá. Ég vil spyrja forseta hvers vegna hún er ekki borin undir atkvæði. Ef hún er samþykkt þá er þessi umræða algjörlega óþörf og við getum farið í önnur mál, því að nóg er af málunum á dagskrá í dag aldrei þessu vant.

Hitt, herra forseti: Hvar er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þegar við ræðum mikilvægasta plagg ríkisstjórnarinnar? Við erum að ræða fjármálastefnu til fimm ára sem má ekki breyta nema eitthvað hræðilegt gerist. Hvar er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra? Ég vil að hann komi hingað í salinn eins og skot. En áður en hann gerir það væri kannski rétt að bera upp frávísunartillöguna.