148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir þessa beiðni. Ég held að það sé algjör lágmarkskurteisi að fjármálaráðherra sé hérna í salnum að hlusta á þessa umræðu. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu þannig að þetta er síðari umræðan. Eftir að þessari umræðu lýkur þá er málinu lokið og því er lokið í fimm ár, því að þessi stefna á að gilda í fimm ár. Þess vegna vil ég taka undir ósk hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur hvað þetta varðar.

Það er sömuleiðis mikilvægt að hér komi til umfjöllunar frávísunartillagan sem hér liggur fyrir sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson leggur fram. Við sjáum það að þrátt fyrir að formaður fjárlaganefndar telji að umsagnirnar hafi verið svo vandaðar þá ákveður hann að hunsa allar ábendingarnar, allar 80 ábendingarnar. Þær voru svo vandaðar að hann þurfti ekki að fara eftir einni einustu. Hér er um að ræða gallað plagg sem þarf að vísa aftur til frekari vinnu til ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki boðlegt, hvorki fyrir okkur í stjórnarandstöðunni né í stjórnarliðinu og ekki fyrir þjóðina.