148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:52]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er það ekki svo að ég treysti ekki hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, til að leiða okkur í gegnum þessa umræðu. Hann hefur stýrt henni ákaflega vel í fjárlaganefnd og á hrós skilið þar þó að menn hafi vissulega valið að hunsa allar þær góðu ábendingar sem komu um þessa ágætu fjármálastefnu.

En mér finnst það algjörlega ótækt að hæstv. fjármálaráðherra skilji hér stólinn sinn eftir auðan í þessari mikilvægu umræðu. Þetta er grundvallarstefnuplagg ríkisstjórnar. Hér ætti að vera fullskipaður bekkur ráðherra sem ættu að vera reiðubúnir að taka þátt í þessari umræðu. Ég hygg að þetta hafi verið með öðrum hætti hjá þáverandi fjármálaráðherra, besta fjármálaráðherra sögunnar, eins og hér hefur verið nefnt. Hann sinnti þessu af mikilli samviskusemi. Ég veit að hann lagði á sig mikla vinnu við að vera viðstaddur umræðuna hérna. Kannski á hæstv. fjármálaráðherra ekki heimangengt. Við vitum að jafnvægi milli heimilis og vinnu er nú ekki mjög gott hér í þinginu. (Forseti hringir.) Það er þá sjálfsagt að taka undir kröfur þeirra sem hér hafa mælt að þessu máli verði einfaldlega frestað þar til það hentar hæstv. fjármálaráðherra að mæta.