148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir þessar skýringar. Hann telur einnig að hæstv. fjármálaráðherra hafi þvegið hendur sínar af fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, einfaldlega vegna þess að hann er ráðherra. Hann er samt líka þingmaður samkvæmt núverandi stjórnskipun, ég veit ekki betur en hann hafi mögulega einhvers konar hagsmuna að gæta að ræða við okkur um þetta skjal sem hann vill að við samþykkjum.

Mér finnst eðlilegt að við tökum fyrir frávísunartillöguna vegna þess að það er ekkert athugavert að taka til afgreiðslu frávísunartillögu. Ríkisstjórnin ætti raunar að taka henni fegins hendi, þá gefst henni tími til þess að vinna málið betur. Við á þessu þingi eigum að staðfesta að þessi fjármálastefna standist lög um opinber fjármál. Við eigum að gútera það og við þurfum að fá hingað ráðherra í hús til að segja okkur hvort það sé virkilega þannig að hún standist lög af því að við trúum því ekki. Til þess að við getum komist að einhverri sameiginlegri niðurstöðu um hvort þessi stefna standist yfir höfuð lög um opinber fjármál þá hljótum við að þurfa hæstv. fjármálaráðherra hér í hús. Það er ekkert annað í boði. Ráðherra eður ei.