148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er alltaf jafn merkilegt að hlusta á hv. þm. Birgi Ármannsson í umræðum um fundarstjórn forseta þegar hann útskýrir að vissulega leggi ráðherrar fram mál sem þetta og síðan taki þingið það til umfjöllunar — og hvað? Eigum við þá ekki að biðja um að ríkisstjórnin sem er að leggja þetta fram til fimm ára komi hingað og tali við okkur? Eru það skilaboðin? Mér heyrist það vera þannig. Mér finnst það mjög lélegur málflutningur, en því miður í takt við varnarræðurnar sem eru haldnar í umræðum um fundarstjórn forseta þegar kemur að viðveru ráðherra eða sambærilegum efnum.

Ef þessi stefna verður ekki gerð almennilega þýðir það það að enn eitt atriðið af lögum um opinber fjármál er orðið minna en átti að vera. Þetta þing og þessi ríkisstjórn er að skemma þessi lög með linnulausu virðingarleysi gagnvart þeim markmiðum sem þeim lögum er ætlað að ná. Þetta er liður í því.

Það er sjálfsagt að hafa fjármálaráðherra hér. Eins og hv. þingmenn Viðreisnar hafa réttilega bent á var sá (Forseti hringir.) ágæti hæstv. fjármálaráðherra á sínum tíma mjög duglegur að koma í andsvör við þá þingmenn sem ræddu sín nefndarálit. Þetta snýst ekki bara um það að fylgja einhverjum grunnlögum, þetta snýst líka um að vera (Forseti hringir.) með í stjórnmálunum. Af hverju (Forseti hringir.) er hæstv. fjármálaráðherra ekki með í stjórnmálunum í dag? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (ÞorS): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk.)