148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég gerði fljótlega talningu hérna frammi áðan og sá að það eru 26 þingmenn og ráðherrar sem eru með fjarvist eða fjarverandi, þá beini ég þessu sérstaklega til ráðherranna sem ættu náttúrlega að vera hérna. Það geta verið ýmsar góðar og gildar ástæður fyrir fjarvist þannig að ég ætla ekkert að segja að það sé alvarlegt á þann hátt, ég beini þessu helst að ráðherrum.

Ég myndi telja mjög eðlilegt að krefjast þess að fjármálastefna fyrir næstu fimm ár sé vel rökstudd og augljóslega samkvæmt lögum um opinber fjármál. Ef hún er skoðuð lauslega, bara með léttri yfirferð, þá sést að svo er ekki. Við hljótum að þurfa að spyrja ráðherrana, það getur virkað þannig að við spyrjum ráðherrana um betri greinargerð fyrir fjármálastefnunni sem gæti leitt til þess að við fáum svörin sem vantar núna.