148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á orðum hv. þm. og þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, Birgis Ármannssonar, þegar hann lætur eins og fjármálaráðherra komi ekki við hver afdrif fjármálastefnu til næstu fimm ára, hans eigin fjármálastefnu, verði hér í þinginu. Honum sé alveg sama, það varði hann ekki neitt hvað fólk ræði hér, hvorki meiri hluti né minni hluti. Hann sé fullkomlega áhugalaus um afdrif þessa máls sem hann leggur sjálfur fyrir þingið.

Að sama skapi gladdi það mig að heyra starfandi þingflokksformann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs líka furða sig á fjarveru fjármálaráðherra, enda er það auðvitað í hæsta máta óvenjulegt að ráðherra skuli ekki fylgja eftir sínu eigin máli, hvað þá stefnu sem á að gilda til fimm ára.