148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:11]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Mér finnst hálffurðulegt að ég þurfi yfir höfuð að koma hingað upp eftir að allir hv. kollegar mínir eru búnir að koma upp og biðja um að hæstv. ráðherra taki þátt í umræðunni, sem er bara svo sjálfsagt. Af hverju er ekki bara orðið við þeirri beiðni eða alla vega útskýring á því hvers vegna hæstv. ráðherra getur ekki mætt og tekið þátt í umræðunni?

Þetta er bara ótrúlegt. Þarna kristallast þessi hroki. Þetta er svo mikil vanvirðing við þingið og störf okkar. Hérna erum við að ræða gríðarlega mikilvægt plagg og biðjum um að hæstv. ráðherra komi og taki þátt í umræðunum. Ég hefði haldið að það væri sjálfsagt að verða við þeirri beiðni. Ég ætla rétt að vona að á einhverjum tímapunkti verði umræðan stoppuð og forseti standi hér upp og útskýri að hann ætli að fresta þessum fundi og við ætlum að biðja hæstv. ráðherra að mæta og taka þátt í umræðunum.