148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig langar að segja ykkur sögu. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi hv. þingmaður á þarsíðasta kjörtímabili — kjörtímabilin eru svo stutt núna — kom upp í ræðustól, klukkan var hálftólf, og kallaði eftir því við forseta, en hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var þá forseti þingsins, að fá ráðherra í salinn. Það væri ekkert hægt að halda áfram með fundinn fyrr en ráðherrann væri kominn í salinn til að ræða þau mál sem hann hafði lagt fram. Einar K. Guðfinnsson, sem er mjög lunkinn í þessari leikfimi þingskapanna, sá sér ekkert annað fært þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði: Það eru nú fordæmi fyrir þessu. Hann gat, með þá þekkingu sem hann hafði, vísað í að það væru fyrir þessu fordæmi og þingforseti sleit fundi. Þetta var mjög flott. Þessir gömlu refir kunna þetta og geta notað fordæmi í sinni þingskapaleikfimi. En þetta fordæmi er til staðar. (Forseti hringir.) Nú er spurning hvort það er fordæmi um þetta í 1. eða 2. umr., nú veit ég það ekki alveg, en nú veit ég að það er alla vega til í 1. umr. Hvort það sé til í 2. umr.? Við þurfum að finna fordæmi fyrir því. (Forseti hringir.) En það er klárlega ekki virðing við þingið ef fjármálaráðherra getur ekki komið og tekið þátt í umræðunni um eitt af sínum stærstu málum.