148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér þykir alltaf svolítið merkilegt að hlusta á hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala annars vegar um virðingu Alþingis og hins vegar sjálfstæði Alþingis þar sem þeir eru sennilega þeir sem eru hvað mest á móti því að gera einhverjar nýstárlegar tilraunir til að gera Alþingi sjálfstætt, t.d. með hugmynd sem ég er sjálfur persónulega ansi hlynntur, minnihlutastjórn.

En, nei, auðvitað á að trukka þessu í gegn á meiri hlutanum. Eins og alltaf, eins og hlutirnir virka víst bara á Íslandi. Það að fara að tala um að sjálfstæði þingsins geri það að verkum að hæstv. fjármálaráðherra sjái sér ekki sóma í að koma hingað og tala um málið sitt er bara vitleysa, virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra mætir ekki hingað er sú að þvert á hugmyndir um sjálfstæði þingsins virkar þetta svona hjá hv. Sjálfstæðisflokki. Ríkisstjórnin hendir inn málum og Alþingi stimplar þau. Þannig virkar það. Svo mikið um sjálfstæði Alþingis, hvað þá virðingu.

Talandi um virðingu, er það ekki virðing fyrir þinginu að (Forseti hringir.) koma hingað og tala um málið sjálft? Eins og bent hefur verið á hafa hæstv. fjármálaráðherrar komið hingað í andsvör við fólk sem hefur skoðanir á málunum. (Forseti hringir.) Það að tala um virðingu Alþingis á meðan hv. Sjálfstæðisflokkur hagar sér svona, alltaf, gagnvart þinginu (Forseti hringir.) eru öfugmæli í besta falli, virðulegi forseti.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á tímamörk.)