148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram og sérstaklega þar sem rætt er um virðingu þingsins. Ég er mjög áhugasamur um að bæta virðingu þessarar stofnunar, það er full þörf á því og það sem við erum að horfa hér upp á er að sjálfsögðu í þveröfuga átt við það.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að ráðherra málaflokksins sé hér staddur og fleiri ráðherrar einnig. Ég nefni t.d. að í þessari fjármálastefnu sem við erum að ræða er gert ráð fyrir því að setja aukinn kraft í viðhald og uppbyggingu innviða, t.d. samgöngur, en texti stefnunnar er hins vegar óljós hvað þetta varðar, bæði varðandi umfang og hvað hið opinbera geti lagt í þessar mikilvægu framkvæmdir. Þess vegna væri líka gott að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra væri hér, svo ekki sé talað um forsætisráðherra sem hefur barist fyrir því að bæta virðingu Alþingis og er búin að skipa nefnd í þeim efnum. (Forseti hringir.) Forvitnilegt væri að vita hvort hún sé sammála því að hér sé verið að bæta virðingu þessarar stofnunar með því að ráðherrar séu allir fjarverandi.