148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

almenn hegningarlög.

10. mál
[20:59]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál heldur er ég fyrst og fremst kominn hingað til að þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir hans atbeina að því að málið er komið á þennan rekspöl og fagna því að hafa átt þess kost að starfa með honum og öðrum nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd í mikilli eindrægni. Það var vönduð vinna sem átti sér stað. Fjölmargir aðilar komu fyrir nefndina og fjölluðu um málið og sendu okkur greinargerðir. Þær voru jákvæðar. Það voru lítils háttar atriði sem þurfti að snurfusa. Ég tel að afraksturinn sé góður.

Það eru mjög mikilvæg skilaboð, tel ég, fólgin í frumvarpinu sem ég vona að nái út til samfélagsins. Þetta eru einföld skilaboð en sterk. Þau snúast um þennan einfalda hlut, það verður að fá samþykki. Mannlegt samneyti snýst um það.

Mig langar að fara með dálítinn texta sem ég held að fangi þetta betur en margt af því sem ég hef séð. Hann er eftir skáldkonuna Elísabetu Jökulsdóttur. Það kannast nú margir við þennan texta. Hann er svona, með leyfi forseta:

„Það eru alls konar venjulegir menn, jafnvel vinir mínir, að kvarta undan þessari metoo-bylgju sem er í gangi, þeir segja „ekkert má maður“ og „hvað má eiginlega“ og ekkert má maður lengur.

Við þá vil ég segja, það má ekkert, maður biður um leyfi fyrir öllu;

Má ég sýna þér hvað ég var að skrifa,

má ég fá tannkremið, má ég fá mjólkina,

má ég knúsa þig, má ég fá lánaða húfuna þína …“