148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

almenn hegningarlög.

10. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég get ekki annað en komið hingað upp og þakkað öll þau fallegu orð sem hafa verið látin falla um þetta ágæta mál og sjálfan mig. Ég vil nú eiginlega koma hingað upp til að segja að ég er ekki alveg aleinn að baki því að málið er komið þetta langt. Allir í nefndinni, starfsmenn þingsins og umsagnaraðilarnir hafa lagt hér hönd á plóg. Síðan get ég ekki látið hjá líða að nefna Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, fyrrum varaþingmann Viðreisnar, sem var mér stoð og stytta í að koma þessu frumvarpi og máli öllu saman.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að í þessu frumvarpi felst þessi skýra stefnuyfirlýsing um vilja löggjafans. Eins og hér var orðað af einum hv. þingmanni, Andrési Inga Jónssyni, erum við að gefa út einhvers konar leiðbeiningar. Það er kannski í samræmi við það sem prófessor Ragnheiður Bragadóttir sagði m.a. í sinni umsögn, mjög ítarlegri, um málið þar sem hún talar um að þetta breyti ekki mjög miklu í sakfellingum og þess háttar en segir svo, með leyfi forseta:

„Hins vegar má segja að lögfesting þessarar skilgreiningar út frá samþykki sé eðlilegur þáttur í þróun réttarins og þar er leitast við að tryggja að lögin séu í samræmi við réttarvitund almennings. Frumvarpsákvæðið leiðir samþykkið betur fram í dagsljósið en gildandi ákvæði. Það er auðskiljanlegt og slíkt ákvæði gæti haft áhrif til að fyrirbyggja brot.“

Þetta er afskaplega mikilvægt.

Þá vil ég líka nefna sérstaklega að með samþykkt þessa frumvarps er Ísland að taka forystu, í það minnsta á Norðurlöndunum, í að útvíkka og skýra betur brot, hvað er refsivert, hvað má og hvað má ekki, með tilliti til nauðgunar. Við getum verið mjög stolt af því. Ég er a.m.k. stoltur af að vera þátttakandi í því.

Ég held líka að það sé ágætt að við minnum okkur á að við erum ekki alveg komin til lands í að laga löggjöfina að því er varðar ýmislegt sem kemur kynferðisbrotum við. Hér hafa verið nefnd atriði eins og stafrænt ofbeldi. Ég held að við eigum að halda áfram á sömu braut og halda áfram að styrkja lagarammann og að það komi skýrt fram frá okkur, frá löggjafanum, hvað má og hvað má ekki í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt að við séum í fararbroddi. Við höfum séð það í tengslum við #metoo-byltinguna að þessi mál öll í víðum skilningi, jafnrétti kynjanna og kynbundið ofbeldi, eru ekki í því lagi sem þau eiga að vera. Þau eru í hinu megnasta ólagi og hafa verið það. Við eigum að laga þau. Ég er sannfærður um að við getum öll hjálpast að við það.

Að lokum vil ég ítreka þakkir mínar til allra sem að málinu hafa komið og vona svo innilega að þetta mál verði samþykkt sem allra fyrst sem lög frá Alþingi.