148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta nefndarálit er nú með sérkennilegri þingplöggum sem ég hef séð lengi og það verður ekkert betra þó að það væri leiklesið hér með tilþrifum. Fyrst gagnrýnir hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson þessa fjármálastefnu fyrir aðhaldsleysi. Síðan vitnar hv. þingmaður í ræður okkar þingmanna Vinstri grænna við síðustu fjármálastefnu þar sem við gagnrýnum of aðhaldssama stefnu og svo vindur hann sér aftur í að gagnrýna okkur fyrir að slaka á aðhaldsstiginu núna. (Gripið fram í.)

Kæri hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, geturðu ekki ákveðið þig? (Gripið fram í.) Elsku hv. þm. Logi Einarsson …

(Forseti (BHar): Gefum hljóð í salnum.)

… er möguleiki á að ég fái að halda þessa ræðu hér í friði? (Gripið fram í.)

(Forseti (BHar): Forseti óskaði eftir hljóði í salnum.)

Það er orðin heldur hvimleið venja með tiltekinn þingmann að hans nýju vinnubrögð í stjórnarandstöðu virðast fyrst og fremst snúast um að gjamma fram í þegar verið er að reyna að halda ræðu úr þessari pontu.

Mig langar bara að fá skýringu á þessu hjá þeim hv. þingmanni sem ég er að eiga orðastað við. Þær ræður sem við héldum um síðustu fjármálastefnu — ég kannast við þær, ég hélt nokkrar þeirra — (Forseti hringir.) fjölluðu fyrst og fremst um það lögbundna útgjaldaþak sem bjó til þá miklu aðhaldsstefnu sem ég kallaði sveltistefnu hér og ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að vitna í það ágæta orð.

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmann á tímamörkin og beina þeim tilmælum til þingmanna að gefa ræðumanni hljóð, sérstaklega þegar um mörg andsvör er að ræða, þá er þetta stuttur tími sem hv. þingmenn vilja væntanlega nota vel.)