148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við eigum að lækka skatta m.a. til að örva hagkerfið, á þeim tímapunkti í hagkerfinu, það er svona ágætismeginregla. Að tala hér um þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn og hvernig við höguðum okkar skattapólitík, bíddu, hvernig voru aðstæðurnar þá? Ég ætla bara að rifja það upp fyrir hv. þingmanni. Þá var halli ríkissjóðs 400 milljarðar eftir eitt stykki hrun sem er á heimsvísu stórt og næsta ár þar á eftir 218 milljarðar. Ég ætla að leiðrétta þetta, hallinn á ríkissjóði var fyrsta árið 218 milljarðar og svo um 200 milljarðar. Um 400 milljarða halli á tveimur árum. Auðvitað þurfti að fjármagna þennan halla, taka til eftir þá óstjórn sem hafði átt sér stað í aðdraganda hrunsins.

Varðandi tillögur Samfylkingarinnar, við fórum yfir þetta í fjárlagaumræðunni, flettið því bara upp, við nefndum nokkra skattstofna, þannig að svo sannarlega liggja fyrir útfærðar tillögur eða hugmyndir a.m.k. um betri tekjugrunna en þessi ríkisstjórn ber á borð.

Mig langar að spyrja fyrst ég er með hv. þingmann hér á móti mér: Hvernig ætlar hv. þingmaður að fjármagna 260 milljarða kr. niðurskurð sem hennar flokkur var að boða um síðustu helgi? 260 milljarða kr. niðurskurður. Það er meira en það sem við verjum í heilbrigðiskerfið allt, 10 prósentustig af landsframleiðslu eru 260 milljarðar. Standið við ykkar eigin orð.