148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í þeirri ríkisstjórn sem Samfylkingin sat í var verið að taka til eftir meiri háttar efnahagshrun. Þá var farin svokölluð blönduð leið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sérstaklega hrósað Íslandi fyrir að hafa farið. Það var blönduð leið niðurskurðar og skattahækkana, það var ekki valin önnur leiðin. Um þetta hefur einmitt verið fjallað á alþjóðavettvangi að hafi tekist þokkalega vel.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar ákvað að hækka frekar skatta en að loka spítölum eða takmarka aðgang að framhaldsskólum og háskólum eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerði þegar hann setti 25 ára regluna. Í því sér fólk hvernig pólitíkin birtist. Við þurftum að taka ákvörðun um hvernig við ætluðum að fjármagna ríkissjóð en engu að síður halda lágmarksvelferðarkerfi og menntakerfi gangandi. Ég held að flestir sem eru sanngjarnir sjái að það hafi nokkuð vel tekist til.

Við í þessum sal og í þessum stól þurfum að geta svarað því hvernig við ætlum að fjármagna kosningaloforð. Ég minni að lokum á að það var einn stjórnmálaflokkur sem lofaði mestu og það var Sjálfstæðisflokkurinn. Það stóð á heimasíðunni ykkar í aðdraganda kosninga: Sjálfstæðisflokkurinn lofar 100 milljörðum í innviðauppbyggingu. (Forseti hringir.) Hvernig ætlið þið að fjármagna það? Engin svör hafa fengist við því nema eitthvert tal um að stækka kökur og annað slíkt.