148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og upplýsandi ræðu. Það er afskaplega mikilvægt, þegar við erum á þessum stað í hagsveiflunni, að við skilum góðum afgangi þannig að þegar við förum niður af toppi hagsveiflunnar göngum við á afganginn en ekki á þjónustu við þá sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda.

Fjármálastefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna er að mínu áliti ekki mikið frábrugðin fjármálastefnu Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þó má segja að sú fjármálastefna sem við ræðum hér sé óábyrgari þar sem tekjuöflunarleiðir eru gefnar eftir og gengið á afganginn meira en fyrri ríkisstjórn ætlaði sér að gera með sinni fjármálastefnu.

Fjármálaráð bendir á að nauðsynlegt sé að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar og peningastefna Seðlabankans leggist saman á sveif um að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Í stefnu fyrri ríkisstjórnar hafi meiri áhersla verið lögð á mikilvægi þessa en í þeirri stefnu sem við ræðum hér nú.

Ég spyr hv. þingmann, þegar hann ber fjármálastefnu þessara tveggja ríkisstjórna saman, hvort hann telji afgerandi mun þar á. Ef hann les saman gagnrýni fjármálaráðs í fyrra og svo þá gagnrýni sem fjármálaráð setur fram við núverandi fjármálastefnu, hvort teljandi munur sé á þessum tveimur plöggum.