148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talaði um grunngildi í ræðu sinni. Ég var ánægð að heyra að hv. þingmaður áttar sig vel á því að grunngildin eiga að standa jafnfætis fjármálareglunum, það á ekki að meta grunngildin eitthvað lægra en fjármálaregluna. Ég var ánægð að heyra það. En í ákvæðinu sem er merkt nr. 3 í fjármálastefnunni — ég hef ekki setið í fjárlaganefnd og veit ekki hvernig umræðan hefur farið fram, en mér finnst langt því frá að þetta ákvæði sé gegnsætt. Ég átta mig ekki á hvað það þýðir að þróun á umfangi starfsemi hins opinbera út tímabilið verði með þeim hætti að það stuðli að efnahagslegum stöðugleika. Var þetta ekki rætt í nefndinni? Getur hv. þingmaður útskýrt fyrir mér hvað meiri hlutinn og stjórnvöld ætla að gera til að sjá til þess að hér verði efnahagslegur stöðugleiki?