148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði komu gestir í u.þ.b. tíu klukkutíma og fjármálastefnan var lítið sem ekkert rædd utan gestakoma. Þannig að: Nei, það var ekki rætt. En hins vegar kemur fram í nefndarálitunum og í raun í fjármálastefnunni sjálfri að gert er ráð fyrir 5,2% aukningu í opinberum fjárfestingum á ári. Það er hlutfallslega umfram hækkun á vergri landsframleiðslu. Krónutalan dugir kannski til að ná þessu, en það er sagt að fjárfesting hins opinbera haldi í við hagvöxtinn og verði að meðaltali 5,2% á ári. Ég veit ekki hvort er hvað þarna, hvort 5,2% sé það að halda í við hagvöxtinn eða hvort þarna sé aukning af því að það er líka sagt í stefnunni að það eigi að auka í iðnaðarframkvæmdir á sama tíma.

Aukning hlýtur að þýða umfram hagvöxtinn ellegar fer allur hagvöxturinn í aukninguna til innviða og allt annað er þá í stöðnun á móti. Það er (Forseti hringir.) það sem ég sé að passar ekki. Ég skil það ekki enn þá, það hefur ekki verið útskýrt.