148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:47]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ítarlega yfirferð og góða. Hv. þingmanni varð talsvert tíðrætt um grunngildi og hvernig farið væri með þau í fjármálastefnunni. Hefur hv. þingmaður skoðun á því eða getur hann hjálpað mér að skilja hvernig stendur á því að hæstv. fjármálaráðherra og ráðuneyti hans taka svona lítið tillit til þess hvernig fara á með grunngildin. Sérstaklega í ljósi þess að þegar síðasta fjármálastefna var lögð fram komu fram athugasemdir af mjög svipuðum toga þannig að sú stefna var heldur ekki fullkomin. En við erum að setja fram nýja stefnu og nýja stefnu og nýja stefnu og ég er að vonast til þess að við lærum smátt og smátt á þetta.

Hefur hv. þingmaður einhverja skýringu á því af hverju við höfum ekkert lært á milli þessara tveggja fjármálastefna að þessu leyti? Er þetta eitthvað í kúltúr stjórnmálanna eða hvernig stendur á þessu? Ábendingarnar hafa verið mjög skýrar. Það er greinilega ekki tekið tillit til þeirra, hvorki frá síðustu stefnu til þessarar né heldur í meðferð hv. fjárlaganefndar sem fer með málið.