148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:51]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mig langar aðeins að bera niður í helstu ábendingar fjármálaráðs þar sem sagt er m.a., með leyfi forseta:

„Í fyrirliggjandi þjóðhagsspá er gert ráð fyrir mjúkri lendingu hagkerfisins, en mjúkar lendingar eru undantekning frekar en regla í íslensku efnahagslífi. Kerfisbundin notkun sviðsmyndagreininga“ — eins og hv. þingmaður nefndi hér — „myndi auka trúverðugleika stefnumörkunarinnar og auðvelda rýni hennar í ljósi grunngilda.“

Síðan segir aftur síðar, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld boða framhald útgjaldaaukningar, sem á sér ekki hliðstæðu á síðustu áratugum. Aukning útgjalda sem jafnframt felur í sér að aðhaldsstigi sé viðhaldið við þensluaðstæður kallar á frekari tekjuöflun eða niðurskurð annarra útgjalda eða blöndu beggja. Ef stjórnvöld gera hvorugt felur það í raun í sér að þau velta ábyrgðinni yfir á stjórn peningamála, að öðru óbreyttu.“

Þetta eru býsna skýrar ábendingar. Ég velti áfram fyrir mér hvernig á því standi að (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra og ráðuneyti hans og hv. fjárlaganefnd (Forseti hringir.) geti einhvern veginn siglt fram hjá þessum viðvörunarorðum.