148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er það ljúft og skylt að reyna að útskýra þetta. Ég les þetta sem stofnanamál, þar sem „æskilegt“ er mjög alvarleg ábending á stofnanamáli, hún er það bara. En í lögunum er notað orðið „skal“. Ég sé ekki endilega að fjármálaráð setji það í umsögn sína í afgerandi máli, ég hef bara aldrei séð það í svona stofnanaskrifum, að þarna sé verið að brjóta lög um opinber fjármál þar sem stendur „skal fylgja greinargerð“.

Það er í raun það sem ég hef að segja þegar ég ber saman lögin þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Í fjármálastefnu skal staðfest að stefnan sé samkvæmt þeim grunngildum …“ — og þá fylgi því greinargerð þess efnis.

Þegar ég fer í álit fjármálaráðs, því að greinargerðina er ekki að finna í stefnunni — ég held að við getum auðveldlega sammælst um að ekki þarf mjög mikla lessnilli til þess að blaða í gegnum fjármálastefnuna og sjá að sú greinargerð er ekki til staðar — þannig að orðið „æskilegt“ er stofnanamál fyrir „skal“ að mínu mati.