148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Áður en ég hef ræðu mína leikur mér forvitni á að vita hvort fjármálaráðherra sé enn í húsi eða hvort hann sé farinn.

(Forseti (SJS): Forseti getur upplýst að hann er enn í húsi því að fyrir svona 30 sekúndum síðan var hann hér í hliðarsal.)

Þá treysti ég því að hann sé einhvers staðar að hlýða af mikilli andakt á þetta innlegg mitt.

Það er auðvelt að týna sér í flókinni tæknilegri umræðu um fjármálastefnu og ég held að það sé ákaflega mikilvægt þegar við erum að ræða þessa grunnstefnu ríkisstjórnar að gleyma því ekki til hvers þetta er gert, af hverju þetta skiptir svona miklu máli, af hverju það er svo gríðarlega mikilvægt að vandað sé vel til verks þegar fjármálastefna nýrrar ríkisstjórnar er mótuð og lögð fram og rædd í þinginu.

Það er nefnilega svo að öll þessi umgjörð, lög um opinber fjármál, er afrakstur lærdómsferils okkar, þessa dýrkeypta lærdóms okkar af hruninu, af þætti ríkisfjármálanna í því hruni sem varð árið 2008 og hvernig þingið, stjórnmálaflokkarnir þvert á alla pólitík, sameinaðist um nauðsynlegar úrbætur. Við viljum að ríkisfjármálin styðji við hagstjórnina til þess að auka stöðugleika, lækka vaxtastig, stuðla að stöðugra gengi en ella og koma í veg fyrir að þeir atburðir sem gerðust hér haustið 2008 endurtaki sig.

Ég man einmitt ágætlega að ég var staddur í Finnlandi haustið 2008 skömmu eftir hrunið á kynningu hjá finnska seðlabankanum, þar sem farið var yfir helstu hagstærðir Finna í aðdraganda þeirra eigin fjármálakreppu, og hugsaði með mér þar sem ég sat og hlustaði á þessa yfirferð hvað hefði verið ágætt fyrir fjölmarga hér að hafa fengið slíka yfirferð kannski fimm til tíu árum fyrr því að þar var margt æðikunnuglegt sem bar fyrir sjónir. En nú höfum við ekki þá afsökun. Nú eru þetta einmitt allt saman mjög kunnuglegar stærðir.

Við höfum farið í gegnum þetta áður, en samt sem áður erum við hreint og klárt að endurtaka sömu hagstjórnarmistök og við gerðum þá. Við erum að ræða um tæknileg atriði eins og grunngildi ríkisfjármála, grunngildi fjármálastefnunnar og af hverju þetta skiptir svona miklu máli, hugtök eins og sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa, gagnsæi. Auðvitað er einfalt að þvælast í þessum hugtökum og sökkva sér mjög djúpt ofan í þau. En um hvað er verið að tala í raun? Það er verið að segja: Ríkisfjármálin verða að leggja okkur lið í hagstjórninni, það verður að vera einhver stöðugleiki í þeim, það verður að vera einhver festa í stjórn ríkisfjármálanna til þess að forða okkur frá endurteknum hagstjórnarmistökum.

Það sem helst er bent á í þessu samhengi og ítrekað hefur verið fjallað hér um í dag, og kemur fyrir getum við sagt sem nokkuð endurtekið stef í velflestum ef ekki öllum þeim umsögnum sem bárust um stefnuna, er trúverðugleiki þess sem unnið er út frá, hagspáin sem unnið er með og hvaða áhrif fjármálastefnan sjálf hefur inn í það hagstjórnarumhverfi. Það er ekkert mat lagt á það hvaða áhrif þessi fjármálastefna stjórnvalda kemur til með að hafa á hagþróun fram á veginn. Það sem skiptir kannski enn meira máli eru aðrir þættir hagstjórnarinnar sem reynir á, vinnumarkaður, peningastefna, en síðast en ekki síst langtímasjálfbærni ríkisfjármálanna.

Hvað er það sem við erum að tala um með langtímasjálfbærni? Er það bara niðurgreiðsla skulda? Nei, það er í raun og veru að tekjur ríkissjóðs til lengri tíma standi undir þeim útgjöldum sem verið er að stilla af. Bent er ítrekað á að til þess að geta lagt raunverulega vandað mat á áhrif þessarar fjármálastefnu vanti allt samhengi við pólitísk stefnumál ríkisstjórnarinnar, hvað hún áformi, hvað hún hafi hugsað sér í útgjaldastefnu sinni. Það er kannski það sem ég staldra við og hef hvað mestar áhyggjur af.

Hagstjórnarmistökin sem voru gerð á fyrsta áratug þessarar aldar voru nefnilega þau að í gríðarlega örum hagvexti voru útgjöld ríkissjóðs aukin sem aldrei fyrr á sama tíma og verið var að lækka skatta. Þegar hagkerfið var orðið vel þanið árið 2007 og það urðu stjórnarskipti, að í stað þess að sýna varkárni á þeim tímapunkti var þvert á móti slegið í klárinn. Mynduð var ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks sem náði saman um hvað? Jú, að eyða góðærinu, að stórauka ríkisútgjöldin á sama tíma og áfram yrði haldið með skattalækkunaráform Sjálfstæðisflokksins.

Þegar maður horfir á yfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar, sem ekki hafa þó komið fram nema í einum fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og við eigum eftir að sjá fjármálaáætlun birtast von bráðar, sýnist manni að stefna hennar sé að slá þau met sem slegin voru 2007, 2008 í útgjaldaaukningu. Svo vitnað sé í ágætan lagatexta frá 1974 ef ég man rétt og ágætur fjármálaráðherra beitti fyrir sig í öðru samhengi „You ain't seen nothing yet“. Það virðist vera stefið í útgjaldastefnu þessarar ríkisstjórnar. Sláum metið frá árinu 2007, frá árinu 2008. Það er kannski ekki nema von að maður horfi á þetta af ákveðinni undrun og spyrji: Hver er eiginlega stefnan?

Í síðustu viku talaði hæstv. forsætisráðherra um yfirvofandi skattahækkanir, á sama tíma og hæstv. fjármálaráðherra talaði um yfirvofandi skattalækkanir. Í aðdraganda kosninga talaði Sjálfstæðisflokkurinn um 100 milljarða innspýtingu í innviðafjárfestingar og ýmsa aðra útgjaldaauka. Á landsfundi sínum talar Sjálfstæðisflokkurinn um mikilvægi þess að skera ríkisútgjöld niður í 35% af landsframleiðslu, nær 10 prósentustiga niðurskurður frá því sem nú er, 260 milljarðar, eins og hér hefur verið nefnt. En það er alveg deginum ljósara að það er ekki stefna þessarar ríkisstjórnar, þvert á móti skal aukið enn verulega í ríkisútgjöldin.

Það snýr einmitt að þessari sjálfbærni. Það er alveg deginum ljósara að við núverandi hagvaxtarstig er mögulega unnt að koma þessari útgjaldaaukningu fyrir. En um leið og hér kreppir aðeins skóinn, þó að það sé ekki nema lítillega, vitum við af fenginni reynslu að tekjur ríkissjóðs dragast mjög skarpt saman. Það fyrsta sem gefur yfirleitt eftir er einkaneyslan sem er hvað ríkulegasti þátturinn í tekjum ríkissjóðs og tekjuskattur lögaðila sem gjarnan eða jafnvel nær hverfur þó að það sé ekki nema lítils háttar aðlögun í hagvexti, svokölluð mjúk lending, sem við höfum reyndar nær aldrei upplifað í íslensku hagkerfi.

Það er alveg ljóst og það er alveg sama hvaða umsagnir um fjármálastefnuna við skoðum, alls staðar er varað við því sama. Við erum á hápunkti hagsveiflunnar. Það er tekið að hægja á. Við erum ekki komin á þann tímapunkt að það sé nauðsynlegt að örva hagkerfið. Það er enn þá hagvöxtur þótt hann sé minni, en það er ítrekað verið að segja við okkur: Við þessar kringumstæður verðum við að fara varlega í ríkisfjármálunum, ekki endurtaka sömu mistök og fyrr.

Þegar maður horfir á það sem þegar hefur gerst á liðlega aldarfjórðungi hafa skatttekjur á hvern Íslending nær tvöfaldast á föstu verðlagi frá 1991 að telja til og með 2016 eða 2017 samkvæmt samantekt Viðskiptaráðs og við erum enn að auka í. Þetta er allt undir styrkri efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið í ríkisstjórn í liðlega 20 ár eða svo af þessum aldarfjórðungi.

Það er kannski ákveðin gráglettni örlaganna að það þurfti vinstri stjórn til þess að taka til eftir útgjaldasukk hægri stjórnar undangenginna nærri 20 ára þar á undan. Það læðist eiginlega að manni sá grunur og maður spyr sig: Er það virkilega það sem þarf aftur næst? Er það það sem Sjálfstæðisflokkurinn reiðir sig á, að einhverjir aðrir komi og taki til eftir hann? Því að það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að fara í stjórn ríkisfjármálanna með neinni ábyrgð í þetta skiptið frekar en hin fyrri ár. Enn skal aukið í.

Það held ég að sé alveg hægt að fullyrða þegar við horfum til grunngilda laga um opinber fjármál að þetta er ekki sjálfbær stefna í ríkisfjármálum. Það er alveg ljóst að tekjur ríkissjóðs til langframa munu ekki duga fyrir þessum útgjöldum nema með verulegri skattahækkun. En það ætlar þessi ríkisstjórn að láta öðrum eftir að gera líkt og vinstri stjórnin lenti í hér á árunum 2009–2013 að þurfa jöfnum höndum að hækka skatta verulega og skera útgjöld niður verulega á sama tíma.

Stefnan stenst heldur ekki gildið um varfærni. Það er alveg ljóst að hér er anað áfram og menn sjást ekki fyrir í því hvert þeir eru að fara. Ríkisstjórninni lá svo á að auka ríkisútgjöldin að á fjórum vikum eða þar um bil í meðförum fjárlaga fyrir árið 2018 tókst henni að auka ríkisútgjöldin um vel á annan tug milljarða frá því sem þegar hafði verið áformað ef ég man rétt og boðar á sama tíma stórsókn á nær öllum helstu útgjaldaliðum ríkisfjármálanna og jafnvel svo hraða og öra stórsókn, hraðaupphlaup má segja, í auknum ríkisútgjöldum að fjárlög 2018 virðast ekki einu sinni duga til heldur er boðað að það þurfi sennilega að spýta nokkuð myndarlega í í fjáraukalögum á þessu ári til þess að anna útgjaldaáhuga ríkisstjórnarinnar.

Þetta er ekki varfærni. Þetta eru ekki sjálfbær ríkisfjármál. Í þessu felst enginn stöðugleiki. Hér er þvert á móti verið að grafa undan stöðugleikanum og varpa ábyrgðinni á hagstjórninni enn og aftur yfir á aðra arma hagstjórnarinnar, vinnumarkað og peningastefnu.

Við vitum að ástandið á vinnumarkaði er mjög varhugavert. Þó að tekist hafi að framlengja kjarasamninga út þetta ár og ljúka kjarasamningum við stærstan hluta opinberra starfsmanna til jafn langs tíma vitum við af yfirlýsingum verkalýðsleiðtoga að kjarasamningalotan fram undan verður verulega erfið. Og hástemmdar yfirlýsingar og loforð ríkisstjórnarinnar um bæði ríkan vilja til þess að liðka fyrir kjarasamningum og ríkan vilja til útgjaldaaukningar munu reynast ríkisfjármálunum mjög dýrkeypt spái ég þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga um næstu áramót. Það þarf nefnilega stundum að halda væntingum niðri en ekki kynda undir þeim. Þar hefur ríkisstjórnin heldur betur kappkostað að spýta í væntingarnar.

Hvað sjáum við ef við skoðum umsagnir aðila eins og fjármálaráðs? Þar er enn og aftur bent á að stefnan er ekki nægilega rökstudd, það er ekki útskýrt með nægilega skýrum hætti hvaða áhrif hún hefur á helstu hagstærðir, hvaða tengingu hún hefur við pólitíska stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Í stuttu máli: Hvernig verða áhrif þeirrar fjármálastefnu sem hér er verið að marka til næstu fimm ára á hagstjórnina og umhverfi okkar í efnahagslífinu á þessu tímabili?

Kannski sjáum við það ekki fyllilega fyrr en einmitt áðurnefnd fjármálaáætlun kemur fram, sem vonandi kemur fram fyrir tilgreindan tíma, 1. apríl, í síðasta falli ekki nema nokkrum dögum of seint eins og nefnt hefur verið hér áður, það þarf ekkert endilega að fylgja lögunum nákvæmlega, allt í lagi þótt það sé farið aðeins út fyrir strikið þar eins og annars staðar. En það er kannski kjarni máls í þessu þegar maður horfir yfir sviðið, horfir á þær umsagnir sem hafa verið gefnar um þessa fjármálastefnu. Maður sér að ríkisstjórnin nálgast ríkisfjármálin og fjármálastjórnina af ákveðinni léttúð og það kemur berlega fram í yfirlýsingum ráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra, þingmanna meiri hlutans, að við höfum ekkert lært. Það er í raun og veru kjarni máls. Við erum að endurtaka nákvæmlega sömu mistök og við gerðum fyrir rétt rúmum áratug.

Þrátt fyrir alla þessa vinnu, alla þessa umræðu, stefnumótunarvinnu með aðilum vinnumarkaðarins, með helstu hagsmunaaðilum, með Seðlabanka, sett á stofn fjármálaráð og ýmsar stofnanir, sérstakan lagabálk um opinber fjármál til þess að treysta umgjörðina, til þess að koma í veg fyrir að þessi mistök gætu endurtekið sig, þá erum við samt sem áður að endurtaka þau lið fyrir lið. Nákvæmlega sömu hlutina og við gerðum hér fyrir rúmum áratug.

Þegar við horfum á aðvaranir umsagnaraðila eins og Viðskiptaráðs, Samtaka iðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins og fleiri, sjáum við auðvitað að hagkerfið er orðið álíka þanið í dag og það var fyrir rúmum áratug síðan. Við höfum áður séð slíka þenslu í hagkerfinu. Við höfum áður séð þessa gríðarlegu styrkingu raungengis, hvort sem er á mælikvarða verðlags eða launa. Sú þróun hefur alltaf endað á sama veg. Hún hefur alltaf endað með yfirleitt nokkuð harðri lendingu, nokkuð skarpri leiðréttingu á raungengi af því að útflutningsgreinarnar hafa ekki staðið undir þessu.

Vissulega getum við staðið hér í dag og fagnað því að kaupmáttur er mikill og við njótum góðs af. Almenningur nýtur góðs af þessari stöðu. Það er auðvitað ánægjulegt. Almenningur hefur líka aldrei þessu vant nýtt þennan góða tíma til að greiða niður skuldir, til þess að styrkja stöðu sína þannig að heimilin standa nokkuð traustum fótum núna ólíkt því sem var fyrir áratug. Vissulega eru mörg ánægjuleg frávik í efnahagslegri stöðu nú samanborið við fyrir rúmum áratug síðan, en þróunin er öll á sama veg og við erum að leggja sömu byrðarnar á útflutningsgreinar okkar og við gerðum fyrir rúmum áratug og við sjáum mjög svo kunnuglegar afleiðingar.

Það hefur enginn vöxtur orðið, engin magnaukning orðið í útflutningsgreinum þjóðarinnar öðrum en ferðaþjónustu undangengin þrjú eða fjögur ár. Öll áhersla sem við lögðum á uppbyggingu sprotagreinanna, uppbyggingu tækni- og þekkingarfyrirtækjanna eftir síðasta hrun, mikilvægi þess að byggja upp hagkerfi byggt á þekkingu, útflutningur þekkingar, McKinsey-skýrslan, öll sú umræða sem fór fram um hana, öll sú umræða sem fór fram á vettvangi samráðsvettvangsins — allt stóð þetta að því sama, mikilvægi þess að treysta stoðir útflutningsgreinanna, treysta rekstrarumhverfi þeirra, treysta rekstrarumhverfi sprotafyrirtækjanna. En þegar rætt er við fulltrúa Samtaka iðnaðarins í dag segja þeir mjög skýrt: Þarna er ekkert að gerast. Það er ekkert að gerast af því að það er búið að kippa rekstrargrundvellinum undan þessum greinum eina ferðina enn. Við getum ekki byggt upp útflutningsgreinar á grundvelli þekkingar og tækni í því óstöðuga mynt-, gengis- og efnahagsumhverfi sem við höfum skapað þessum greinum á undanförnum áratug. Þetta eigum við að hafa lært. En áfram höldum við að endurtaka sömu hlutina.

Einhvers staðar var því fleygt að það að endurtaka sömu hlutina aftur og aftur en vænta einhverrar annarrar niðurstöðu væri hin formlega skilgreining á geðveiki. Ég ætla rétt að vona að við séum ekki þar, en það er farið að hljóma æðibrjálæðislegt að þurfa að endurtaka svona ræður síendurtekið.

Ég held að það sé kominn tími til þess að við lærum af mistökunum. Ég held að það sé kominn tími til þess að þessi ríkisstjórn taki hagstjórnarhlutverk sitt alvarlega. Stjórnmálin snúast nefnilega ekki bara um að auka útgjöld. Sú málamiðlun sem orðið hefur til í þessari ríkisstjórn um stóraukin útgjöld samhliða áformum um skattalækkanir, þótt vissulega séu loðin og óljós, er baneitraður kokteill eins og áður hefur verið sagt í þessum sal. Þetta er stórhættulegt upplegg með að öllum líkindum ákaflega kunnuglegum afleiðingum. Það mun væntanlega þá koma í hlut næstu ríkisstjórnar að taka til eftir þetta fyllirí.

Ég vona svo sannarlega að þessi ríkisstjórn sjái að sér, að hún endurskoði þetta upplegg sitt að ríkisfjármálunum, að Sjálfstæðisflokkurinn reyni ekki í þetta skipti að slá fyrri Íslandsmet sín í útgjaldaaukningu, og að við tökum þessa stefnu hreinlega til endurskoðunar. Ég held að það væri eiginlega bara farsælast eins og hér er reyndar tillaga fyrir þinginu, að senda þessa fjármálastefnu aftur til ríkisstjórnarinnar. Hún er ótæk.