148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að mörgu leyti sammála málflutningi hv. þm. Þorsteins Víglundssonar. Ég deili áhyggjum hans af stöðugleikanum. Ég deili áhyggjum hans af því að þessi stefna sé aðhaldslítil, bæði tekjulega séð og útgjaldamegin ekki síst. Ég deili sömuleiðis þeirri skoðun hv. þingmanns eins og ég skil hann að stefnan uppfylli ekki grunngildin um sjálfbærni, varfærni, festu, gagnsæi og stöðugleika.

Hv. þingmaður nefndi það að við værum hugsanlega að endurtaka hagstjórnarmistök fyrri ára. Ég tek undir það sömuleiðis. Hann gat sérstaklega um það að hugsanlega þyrfti vinstri stjórn til að taka hér til eftir þessi hagstjórnarmistök. Gott og vel, það verður kannski hlutskipti okkar.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að hann starfaði lengi fyrir hagsmunasamtök á vinnumarkaði, hvaða áhrif hann telur þessa stefnu hafa á vinnumarkaðinn sem gæti verið í uppnámi í lok árs, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra var að stæra sig af því að það væri kominn friður á vinnumarkaði. Að mínu mati er það bara skammvinnur friður. Það væri fróðlegt að fá skoðun hv. þingmanns á þeim áhrifum á vinnumarkaðinn.