148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:23]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í stuttu máli hef ég þungar áhyggjur af því hvaða áhrif bæði þessi stefna og auðvitað mjög hástemmdar yfirlýsingar fulltrúa ríkisstjórnarinnar geta haft á ástandið á vinnumarkaði á komandi hausti. Hér er mjög einfaldlega boðað til veislu. Það er boðað til mikillar útgjaldaveislu og mér sýnist af viðbrögðum verkalýðsforystunnar að hún sé alveg reiðubúin að setjast að því hlaðborði og fá að hafa eitthvað um það að segja hvað þar verði reitt fram.

Ég held að þetta sé mjög varhugaverð stefna. Ég held að það sé mjög varhugavert í raun og veru þegar ríkisstjórn setur sig svona í miðju kjaradeilna, lofar svo miklu um stöðugleikann á vinnumarkaði að það er eins og ríkisstjórnin ætli að leiða næstu kjaralotu. Það er nefnilega viðfangsefni aðila vinnumarkaðarins að semja um kaup og kjör. Við erum þegar komin með þá stöðu hér og hefur í raun og veru verið þróun til verri vegar allar götur frá þjóðarsátt (Forseti hringir.) að það eru alltaf sívaxandi kröfur á ríkisvaldið. Mér sýnist að þessi ríkisstjórn hafi lítið annað gert en að kynda undir væntingum (Forseti hringir.) um mjög mikla og myndarlega aðkomu að næstu kjarasamningum.