148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég saknaði að heyra hér í ræðunni voru tillögurnar um skattahækkanir sem hv. þingmaður virðist vera orðinn talsmaður fyrir vegna þess að hann mótmælir því mjög harkalega að uppi séu áform um það á næstu árum að lækka skatta. Þó er það svo að hv. þingmaður var eitt sinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og þá talaði hann mikið um þörfina fyrir skattalækkanir, t.d. á þeim tíma sem hann var framkvæmdastjóri var boðskapurinn þessi: Allt of háir skattar á Íslandi standa í vegi fyrir efnahagsbatanum. Skömmu áður höfðu Samtök atvinnulífsins komist að þeirri niðurstöðu að hér á Íslandi hefði verið sett Evrópumet í skattahækkunum. En nú þegar hv. þingmaður er kominn hingað í þennan sal þá leggst hann gegn skattalækkunum. Ég heyri ekki betur en að hann sé að kalla eftir skattahækkunum.

Mig langar til þess að heyra nánar um þessar skattahækkanir sem hv. þingmaður boðar og eins líka um niðurskurðinn sem hann telur greinilega skorta í þessari áætlun sem og þeirri stefnu sem hér er til umræðu vegna þess að hann er greinilega á móti (Forseti hringir.) auknum ríkisútgjöldum eins og þau birtast í útgjaldalínustefnunni.