148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Kosturinn við það að vera í stjórnarandstöðu, sér í lagi þegar það er stjórnarandstaða fimm flokka, er að við þurfum ekkert að vera öll sammála um alla hluti. Við megum hafa ólíkar áherslur og ólíka stefnu. Það er ríkisstjórnin sem hefur hins vegar það verkefni að samræma stefnu þriggja flokka og það er einmitt þessi sama ríkisstjórn sem talar út og suður, bæði í útgjaldamálum og skattamálum. Forsætisráðherra talar fyrir skattahækkunum, fjármálaráðherra talar fyrir skattalækkunum en framkvæmir skattahækkanirnar. Öll tala þau reyndar einum rómi fyrir útgjaldaaukningunni.

Það er þetta sem ég hef verið að leggja áherslu á: Eigi að vera svigrúm til þess að lækka skatta og sýna aðhaldssemi í ríkisfjármálunum, að ríkisfjármálin leggi hagstjórninni lið, þarf að draga úr þessari útgjaldaaukningu. Ríkisstjórnin þarf að halda aðeins aftur af sér þar og leggja kannski fremur áherslu á að greiða niður skuldir en að auka útgjöldin gegndarlaust, eða einfaldlega að gangast við því að þessi stefna hennar gengur ekki. Hún verður þá einfaldlega að sætta sig við það að ætli hún að auka útgjöldin svona mikið þarf hún að hækka skatta. (Forseti hringir.)

Það má alveg benda á í því samhengi að afgangur af rekstri ríkissjóðs á árunum 2006 og 2007 var held ég um 4% af landsframleiðslu hvort ár um sig. Hann hvarf á einu ári.