148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður bendir á, að okkur er vissulega vandi búinn af því að ekkert verður um það deilt að innviðafjárfestingin er brýn. Það ber reyndar að fara varlega með tölur því að þarna eru auðvitað líka gríðarlega háar fjárhæðir í innviðauppbyggingu, í flugvöllum, raforkukerfi o.s.frv., sem ekki verður fjármagnað úr ríkissjóði, það þarf auðvitað að gæta að því. En við vitum að innviðauppbyggingin í heilbrigðiskerfi og í vegakerfi landsins er æðibrýn. Það er sorglegt til þess að vita að viðskilnaðurinn við ríkisfjármálin fyrir rúmum áratug var slíkur að ekkert svigrúm gafst til innviðauppbyggingar einmitt á þeim tímapunkti sem hagkerfið hefði þurft á því að halda, þegar ríkissjóður hefði fengið mest fyrir aurinn. Þegar bestu mögulegu kringumstæður hefðu verið til innviðauppbyggingar höfðum við ekki efni á henni. Það er auðvitað líka það sem við þurfum að varast í þessari uppsveiflu, að lenda ekki í sömu stöðu aftur. Þegar hagkerfið kólnar höfum við ekki heldur efni á innviðauppbyggingu. Þess vegna þurfum við að dreifa henni.