148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður áttar sig á því brýna verkefni í fjárfestingu sem við verðum að fara í ef við ætlum að standast grunngildi eins og sjálfbærni og byggja upp innviðina. Það kemur nefnilega fram í umsögnum um þessa stefnu, af því að hv. þingmaður kom hér inn á hagvaxtarþróunina, að við tókum toppinn á hagsveiflunni í lok árs 2016 og í stað 4,9% hagvaxtar, sem spáð var fyrir síðasta ár, er hann ekki nema 3,6%. Í þessari stefnu er vissulega örlítið minni afgangur í takti við það og fjármunum forgangsraðað í þá mikilvægu þætti sem eru samgöngur, menntamál og heilbrigðismál. (Forseti hringir.) Það er nefnilega þannig að þessar stefnur eru keimlíkar fyrir utan þessi afkomumarkmið.