148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að hreyfa máli sem hefur svo sem komið til tals áður en veldur mér vaxandi áhyggjum, ekki síst eftir nýlegar upplýsingar sem komu fram á fundi fjárlaganefndar ekki alls fyrir löngu. Öryrkjar, þ.e. þeir sem metnir hafa verið með 75% örorkumat eða meira, eru orðnir 20 þúsund talsins. Á tíu árum, frá 2007 til 2017 hefur þeim fjölgað um á bilinu 1.200–1.800 á ári. Til samanburðar við þá tölu eru þátttakendur á vinnumarkaði um 190 þúsund.

Árið 2016 var nýgengi örorku í fyrsta skipti meiri en náttúruleg fjölgun á vinnumarkaði, þ.e. fleiri fengu örorkumat upp á 75% en komu nýir inn á íslenska vinnumarkaðinn.

Það er mikið áhyggjuefni í því að fjölgunin er annars vegar mest hjá konum á aldrinum 30–40 ára og hins vegar hjá strákum á aldrinum 20–30 ára. Ef maður myndi alhæfa aðeins um það þá er algengasta ástæðan fyrir nýgengi örorku hjá strákunum geðraskanir og stoðkerfissjúkdómar hjá ungu konunum.

Þetta er miklu meiri fjölgun, sérstaklega í þessum aldurshópum, en við þekkjum til dæmis á hinum Norðurlöndunum. Við getum ekki horft upp á ungt fólk, þúsundum saman, stimplast út af vinnumarkaði, kannski fyrir lífstíð, ef við getum gert eitthvað í því. Það er rándýrt fyrir þjóðfélagið en það er auðvitað enn dýrkeyptara fyrir það fólk sjálft sem lendir í þessu. Áhersla okkar á að færast frá því sem nú er yfir í það að aðstoða fólk í endurhæfingu til að það komist aftur út á vinnumarkaðinn.