148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom einmitt inn á nefndarálitið sem við erum meðflutningsmenn á, kom þar inn á umsagnaraðilana sem ég náði ekki að fara yfir í framsöguræðu minni; nefndarálitið er langt þannig að ég vildi fara aðeins nánar út í það. Það eru þessi ummæli um að allir eða langflestir umsagnaraðilar hafi verið sammála um að hagspáin væri of bjartsýn. Við getum lesið það úr hagspá Hagstofunnar að á einu ári hefur spáin um hagvöxt farið úr því að vera 6% fyrir árið 2017 niður í áætlaðan raunhagvöxt upp á 3,8%, niður í 2,9% í hagspá fyrir árið 2018. Hvað þýðir það, fyrir jafn menntaðan mann og hann er á þessu sviði, að við séum að fara frá spá upp á 6% niður í 2,9% á einu ári? Þetta eru svona hugleiðingar sem mig langaði að deila með hv. þingmanni. Viðskiptaráð Íslands varaði líka við spá um viðskiptajöfnuð og hvatti til varúðar; að miðað við halla á viðskiptajöfnuði það sem af er ársins, það er bara mars núna, verði að teljast ólíklegt að spá Hagstofunnar um 140 milljarða viðskiptajöfnuð rætist. Mig langaði að eiga orðastað við hv. þingmann um þessi ummæli og hans túlkun á þeim þar sem hann er menntaður í þessum fræðum.