148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef lesið greinargerðina með frumvarpinu og veitt því athygli að þau dæmi sem eru tiltekin eru auðvitað af einhverju tagi eins og hv. þingmaður nefnir. Við getum ímyndað okkur að þegar kosningaaldur sé lækkaður megi ætla að kosningaþátttaka verði meiri í þeim árgöngum sem eru að fá kosningarrétt í fyrsta sinn en þeim sem koma næst á eftir. Ég hygg að þannig sé það oftast nær. En hafi ég rangt fyrir mér varðandi það verð ég vafalaust leiðréttur í þessari umræðu. Ég held að það sé meiri spenningur meðal þeirra sem eru að fá kosningarrétt í fyrsta sinn, hvort sem þeir eru 16 ára eða 18 ára, en þeirra sem hafa haft hann um eitthvert tímabil.

Ég leyfi mér að efast um að lækkun kosningaaldursins sem slík muni leiða til aukinnar stjórnmálaþátttöku ungs fólks. Ég held að stjórnmálaþátttaka ungs fólks hafi almennt ekkert aukist þó að kosningarrétturinn hafi verið lækkaður úr 20 árum í 18 ár á sínum tíma, raunar ekkert fyrir svo löngu. Ég leyfi mér að efast um það. Ég hef engar tölur um það eða vísindalegar rannsóknir á bak við það. Fyrir þeirri lækkun voru hins vegar aðrar ástæður sem lutu meðal annars að því að menn voru í auknum mæli að líta á 18 ára einstaklinga sem fullgilda þátttakendur í samfélaginu. Nú má draga þau mörk við 18 ár eða 16 ár eða eitthvað, en mér finnst þessi rök um að hægt sé að stuðla að aukinni stjórnmálaþátttöku ungs fólks almennt með þessari lækkun ekki alveg ganga upp, en vildi þó taka það fram að ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að draga mörkin á báðum stöðunum, (Forseti hringir.) hvort sem er við 18 ár eða 16 ár. Ég er bara ekki viss um að það sé (Forseti hringir.) til þess fallið að ná þeim markmiðum sem flutningsmenn frumvarpsins gefa sér að sé helsta röksemdin fyrir því að lækka aldurinn.