148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í sjálfu sér getum við hv. þingmaður velt því fyrir okkur hvort beint samhengi sé þarna á milli. Það verða alltaf fræðilegar vangaveltur okkar hér. Ég hef bent á dæmi þar sem við getum einfaldlega horft á hvernig tókst til. Það er oft ágætt. (Gripið fram í.) — Ég kom sérstaklega inn á að það er í nefndarálitinu. Það gekk ekki nógu vel þar. Það er sérstaklega komið inn á það að þar hefði ónógri fræðslu verið kennt um. Við getum nefnt Möltu. Þar var þátttaka 16 og 17 ára kjósenda í sveitarstjórnarkosningum árið 2015 svo góð að nú er uppi hávær umræða um að lækka aldurinn jafnhliða því í þingkosningum. Reynsla þeirra er svo góð að þeir vilja útvíkka þetta.

Við getum velt þessu fyrir okkur. Hv. þingmaður nefndi þegar kosningaaldrinum var breytt síðast, úr 20 árum í 18 ár, það var árið 1984. Ætli við hv. þingmenn höfum ekki þá verið að nálgast það að taka þátt í ungliðastarfi þeirra flokka sem við tilheyrðum þá, þó að hv. þingmaður tilheyri enn sama flokki. Hann getur hugsað aftur til þess tíma hvort hann muni það ekki að sá aldurshópur sem allt í einu fékk að taka þátt í kosningum, en hefði ekki getað það fyrir breytinguna, hafi ekki verið áhugasamur þar um.

Fyrst minnst er á ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka má kannski rifja það upp að þar er aldurstakmarkið oftar en ekki einmitt þau 16 ár sem hér er miðað við (Gripið fram í.)eða jafnvel 15. Hv. þingmaður getur kannski spurt sig að því hvort hann treysti ekki þeim 16–17 ára fulltrúum sem hann sat til borðs með á landsfundi síns flokks um helgina til að taka þátt í kosningunum verði frumvarpið að lögum.