148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að tíminn er stuttur. Ég segi: Þegar menn gera svona breytingar á kosningalögum skulu menn vera alveg vissir um að sú breyting nái fram að ganga hnökralaust í kosningum. Ég er ekki viss um að svo yrði. Ég hef ekki fullvissu fyrir því. Ég hef ekki fullvissu fyrir því miðað við upplýsingar úr dómsmálaráðuneytinu og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég hef áhyggjur af því að þetta geti orðið til þess að kosningar til sveitarstjórna í maí nk. verði okkur erfiðar og að upp komi vandamál sem við eigum ekki að þurfa að glíma við.

En ég segi líka: Þegar við erum að gera breytingar af þessu tagi vona ég að ég sé ekki einn um það í þessum sal að leggja áherslu á að þær breytingar sem verið er að gera í þessa áttina njóti víðtæks stuðnings í þinginu, að þær séu ekki umdeildar, að við getum staðið, sem flest og helst öll, saman að baki þeim breytingum. Ég vona svo sannarlega, og ég tel mig vita það, að hv. þingmaður sé mér sammála í þeim efnum.