148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er ein þeirra sem standa að meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í þessu tiltekna máli um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna er varðar kosningaaldur. Ég er sammála því sem fram hefur komið hér í dag að umræðan í nefndinni var öll með besta móti, var einstaklega ánægjuleg, hvort tveggja meðal okkar nefndarmanna sem og þeirra gesta sem komu fyrir nefndina.

Það sem vakir fyrir mér varðandi stuðninginn við að þetta frumvarp nái fram að ganga — og þess vegna setti ég mig á álit meiri hlutans — er sú staðreynd að langstærsti hluti þeirra umsagnaraðila og þeirra sem fyrir nefndina komu hvatti til þess að breyting þessi hlyti brautargengi hér á þinginu.

Áður en málið hlaut umfjöllun í nefndinni var ég jákvæð fyrir þessum breytingum, þessari lækkun kosningaaldurs, en beið spennt eftir því að heyra álit hagsmunaaðila. Ég taldi rétt, eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, að tíminn væri ef til vill of naumur til að fara í slíkar breytingar og ef til vill væru 16 ára börn ekki nægilega undirbúin og kerfið allt vanmáttugt til að takast á við þetta núna. Svo fór að við umfjöllun í nefndinni og við gestakomur snerist mér hugur varðandi þessi tímamörk, því að svo virðist sem umsagnaraðilar telji svo ekki vera utan mögulega Sambands íslenskra sveitarfélaga, en ég kem frekar að áliti þeirra hér á eftir.

Hvað varðar lýðræðispunktinn í þessu þá skiptir það máli, fyrir hvern þann sem býr í samfélagi, að fá að taka virkan þátt í því samfélagi sem maður býr í í samræmi við þroska. Hefur verið bent á það, og er svo sem bent á það í áliti meiri hlutans, að dræmur áhugi ungs fólks á kosningum kunni að markast af því að ungt fólk fær ekki að taka þátt í kosningum fyrr en í fyrsta lagi þegar það er 18 ára. Þá getur sú staða verið uppi að maður fái að taka þátt í sínum fyrstu kosningum 21 árs, einfaldlega vegna þess hvenær kosningar ber upp. En það hefur svo sem ekki verið vandamálið að undanförnu, enda hefur verið kosið ótt og títt hér á landi. En það er engu að síður staðan að fólk er orðið rígfullorðið þegar það fær í fyrsta sinn að fara inn í kjörklefann. Það er ekki mjög hvetjandi að fá ekki að taka þátt í því samfélagi sem þér ber lögum samkvæmt að taka þátt í frá sjálfræðisaldri og jafnvel fyrr.

Varðandi undirbúninginn, af því að það er aðallega það sem verið er að fetta fingur út í, að minnsta kosti í 1. og 2. minnihlutaáliti, þá er það þetta varðandi fræðsluna: Hvernig á að fræða þá einstaklinga sem eru 16 ára í dag og fá samkvæmt þessu kosningarrétt? Það var þar sem ég staldraði sérstaklega við gestakomur í nefndinni vegna þess að fræðslan sem við veitum ungu fólki í dag, sem er 18 ára og á að fá að kjósa í fyrsta skipti, er bara sáralítil. Þessi fræðsla fer af hálfu stjórnvalda eingöngu fram á vefnum kosningar.is. Það er bara þannig. Það er engin póstsending heim frá stjórnvöldum, engin áminning um að þú hafir nú hlotið kosningarrétt. Það er ekkert slíkt sem fer fram og voru aðilar frá dómsmálaráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu margspurðir út í þetta. Það eina sem á sér stað er þetta sjálfsprottna. KrakkaRÚV er með eitthvað, en það er auðvitað fyrir miklu yngri hóp. Skuggakosningar í framhaldsskólum eiga sér stað og börn í framhaldsskólum eru frá 15 ára aldri og upp í 20 ára, þannig að þar er engin fyrirstaða. Lýðræðiskennslan á sér stað í grunnskólum ef einhver er. Það er til dæmis með því að börn koma hingað á Skólaþingið á Alþingi og fá að eyða hér nokkrum klukkutímum einu sinni á grunnskólaferli sínum, þá í 9. eða 10. bekk, og ekki einu sinni öll börn á landinu heldur bara börn úr sumum skólum. Það er nú öll kynningin. Þá breytir engu hvort um er að ræða 16 ára barn eða 18 ára ungmenni. Ég tek hins vegar heils hugar undir mikilvægi þess að efla fræðsluna umtalsvert. Ég vil gjarnan að við förum í átak hvað það varðar, en slík fræðsla á sér því miður ekki stað í dag. Þar eigum við auðvitað, burt séð frá því hvort þetta verði samþykkt eða ekki og algerlega óháð þessu, að taka okkur tak.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson talaði hér um hversu ánægjulegt það er að fara í menntaskólana og framhaldsskólana og hitta unga fólkið af því að það væri mjög meðvitað um allt sem er að gerast. Ég tek undir það með hv. þingmanni. Ungt fólk í dag er að mínu mati mun meðvitaðra um sitt samfélag, bæði nærsamfélagið og það sem er að gerast úti í heimi, en ég og mínir jafnaldrar voru á sama aldri. Þau eru miklu víðsýnni, miklu meðvitaðri um alla samfélagsþátttöku. Ég velti fyrir mér hvort það ætti ekki einmitt að horfa á það.

Það kom einnig fram í máli hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar að kynningin í skólunum væri í raun undir hverjum og einum kennara komin. Ég tek heils hugar undir það. Það er hluti af vandanum. Ég hef fylgst með fjórum börnum ganga í gegnum grunnskóla og það er algjör hending hvernig kennsla þeirra hefur farið fram varðandi lýðræðisleg réttindi þeirra í framtíðinni. Það virðist einmitt fara eftir áhuga hvers kennara. Við erum með skólaskyldu á Íslandi út grunnskólann. Þar getum við klárlega haft ákveðin áhrif. En skólaskyldu lýkur við 16 ára aldur. Þess vegna er í raun meiri möguleiki fyrir okkur að hafa áhrif þar.

Varðandi fræðslu vil ég líka að við hugsum sérstaklega um þann hóp sem öðlast kosningarrétt á Íslandi við sveitarstjórnarkosningarnar núna og er ég þar að tala um erlenda borgara sem eru búsettir hér. Þessir erlendu borgarar hafa kosningarrétt á Íslandi en engum dettur í hug að upplýsa þá um það. Kom það skýrt fram í máli fulltrúa dómsmálaráðuneytis sem komu fyrir nefndina. Við erum einfaldlega ekki að upplýsa íbúa þessa lands um þeirra lýðræðislega rétt. Ef við ætlum að fresta afgreiðslu þessa máls eða hafna því að afgreiða þetta vegna þess að 16–18 ára ungmenni séu ekki nógu vel upplýst eða við fræðum þau ekki nóg, þá á það við um miklu fleiri. Það á alveg eins við um þann einstakling sem er orðinn 18 ára og eldri og alla þá erlendu borgara sem hér búa. Þar er sjálfstæður vandi sem við þurfum að taka á.

Varðandi kynningarmál, hvernig stjórnmálaflokkarnir fara að því að kynna markmið sín, hafa stjórnmálaflokkarnir hins vegar sjálfir annast það að senda nýjum kjósendum upplýsingapésa. Þá verða þeir bara að halda því áfram. Ég treysti því að þeir muni halda áfram að herja á ungt fólk með alls konar tækjum og tólum eins og hefur gerst. Fyrir alþingiskosningarnar 28. október sl. var jafnvel herjað á miklu yngri börn en þau sem þá höfðu möguleika á því að ganga til kosninga, enda var ráðist þar inn í alls konar tölvuleiki og samfélagsmiðla og YouTube og ég veit ekki hvað og hvað með alls kyns áróður. Það er önnur umræða.

Aðeins varðandi álit Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem setur mikinn fyrirvara við þetta, og umboðsmann barna, sem er mjög jákvæð gagnvart þessu, þá er rétt að taka fram að í máli umboðsmanns barna, sem við heimsóttum í dag, nýir þingmenn, kom einmitt fram að hún er mjög jákvæð gagnvart þessu. Hún var líka mjög jákvæð gagnvart þessari breytingu þegar hún kom fyrir nefndina einmitt vegna þess að það væri mikilvægt fyrir börn að fá að taka þátt í samfélaginu og hafa áhrif á samfélag sitt, það myndi efla sjálfsmynd þeirra.

Varðandi Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar þá má sjá að meginþorri umsagnar þeirra varðar kjörgengi, ekki kosningarrétt. Sjá má að helstu áhyggjuefni þeirra varða það að einstaklingur sem mögulega getur verið kjörgengur fyrir þessar kosningar viti ekki af því þegar kosningarnar byrja og viti ekki af því þegar flokkarnir fara í prófkjör. Nú er það svo að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir, og sérstaklega ekki eftir að búið er að útskýra þetta ítarlega í nefndaráliti meiri hlutans með breytingum, að einstaklingurinn öðlist kjörgengi samhliða kosningarrétti.

Aðeins varðandi það að svo skammur tími sé til stefnu að ekki sé hægt að gera fólki það að þekkja rétt sinn á 60 dögum, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom inn á, þá hefur nú verið boðað til kosninga með skemmri fyrirvara en 60 dögum. Hefur flokkum verið gert að kynna stefnumál sín og væntanlegum kjósendum að kynna sér stefnumálin og kynna sér allt sem þar er á skemmri tíma en 60 dögum. Síðast þegar ríkisstjórn sprakk hér, síðastliðið haust, var boðað til kosninga með mjög skömmum fyrirvara af þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.

Hvað má 16 ára ungmenni gera? Það er auðvitað aðeins farið yfir það í nefndaráliti meiri hlutans. Við 16 ára aldur má skrá sig í trúfélag, en þá skal benda á að hafi barn náð 12 ára aldri skal alltaf leita álits barnsins ef foreldrar ætla að hringla eitthvað með trúfélag. Við 16 ára aldur má skrá sig í stjórnmálaflokkinn Samfylkinguna, en hjá Sjálfstæðisflokknum má barn skrá sig 15 ára. Það vefst ekkert fyrir þeim ágæta flokki að heimila þeim þátttöku í hvers kyns flokksstarfi eða í prófkjörum, þó að barnið sem skráir sig í Sjálfstæðisflokkinn sé ekki orðið sjálfráða. Þarna veltir maður fyrir sér hvort þeir sem standa að 3. minnihlutaáliti hafi sett sig upp á móti þessum reglum í sínum eigin flokki. Réttur til að taka ákvörðun um heilbrigðisþjónustu er 16 ár. Sakhæfisaldurinn er 15 ár. Leyfi til að kaupa áfengi er 20 ár og ökuleyfi 17 ár. Þannig að þau rök 3. minni hluta að samræma verði þetta allt halda ekki. Þá er vert að benda á að kosningarréttur til sveitarstjórna og kosningarréttur til þings er ekki sá sami, ekki er samræmi þar á milli. Allir fá þó að kjósa 18 ára, en það fer eftir ríkisborgararétti hvort þú færð að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum, þingkosningum eða forsetakosningum. Hvað varðar kjörgengi þá verður maður að vera orðinn 35 ára til að vera kjörgengur til forseta en 18 ára annars, þannig að það er hringl á þessu.

Að lokum varðandi réttindi og skyldur þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að barn sem verður 16 ára á árinu skal greiða skatta á Íslandi. Það heyrir maður að eru þung rök hjá þeim ungmennum sem komu fyrir nefndina og öðrum sem hafa sent inn álit að finnst óréttlátt að þurfa að greiða skatta en fá ekki að hafa neitt um það að segja hvernig sköttum þeirra er varið.

Að lokum. Í umræðu um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, í greinargerð og vangaveltum hvað hann varðar, er almennt litið svo á að börn verði að vera þátttakendur í samfélaginu til að eiga möguleika á að öðlast persónulegan og samfélagslegan þroska — persónulegan þroska vegna þess að rétturinn til að tjá sig og vitneskjan um að hlustað sé á viðkomandi er svo nátengd sjálfsvirðingunni, samfélagslegan þroska vegna þess að börn eru sjálfstæðir einstaklingar og þau eru hluti af samfélaginu.

Börn eiga þannig rétt á því að skynja að það sé almennt viðurkennt og hlustað á þau að þau fái smám saman að læra og finna til ábyrgðar í takt við aldur og þroska. Þannig eykst réttur þeirra í samræmi við hækkandi aldur þeirra.

Hlutverk foreldranna hins vegar, af því var komið inn á það hvort foreldrarnir færu að skipta sér af því hvernig þau ætluðu að fara að greiða atkvæði, eftir ákveðinn aldur verður meira leiðbeinandi og til verndar. Þess vegna er ég alfarið ósammála þeim skoðunum 3. minni hluta, sem fram kom í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar, að við eigum að lækka sjálfræðisaldurinn aftur niður í 16 ár af því við, fullorðna fólkið, höfum einmitt enn þetta leiðbeiningar- og verndarhlutverk. Af því að við erum að horfa á það sem er barni fyrir bestu, þá held ég að það sé þeim fyrir bestu að við höldum þeim börnum lengur en til 16 ára.

Því hefur einnig gjarnan verið haldið fram að geta barna til þátttöku í lýðræðissamfélagi sé vanmetin og að réttindi þeirra eigi að skoðast út frá því sjónarmiði að gera skuli ráð fyrir að þau séu hæf. Við getum auðvitað alveg velt vöngum yfir því hvort kjósendur á Íslandi almennt séu hæfir til að taka upplýsta ákvörðun, en það er önnur umræða og alls ekki okkar að meta hér á Alþingi.

Ég tek því undir álit meiri hlutans, sem ég er aðili að, um að við greiðum atkvæði með því að lækka kosningaaldur á Íslandi.