148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir spurninguna. Hann spurði hvort ég teldi að kosningaaldurinn væri léttvægari en annað, eða að sá réttur að fá að ganga til kosninga væri léttvægari en annar réttur. Ég get svarað þessu einfaldlega með bæði jái og neii í rauninni. Lýðræðislegur réttur til þess að ganga til kosninga er gríðarlega mikilvægur. Sá lýðræðislegi réttur skiptir umtalsverðu máli, að einstaklingar fái að ganga til kosninga og hafa þannig áhrif á samfélagið sem þeir búa í, að þeir þurfi ekki að lúta því að allir aðrir í kringum þá fái að velja þá kjörnu fulltrúa sem fara með valdið yfir þeim, af því að við höfum ákveðið að hafa fulltrúalýðræði, heldur að einstaklingarnir fái að taka þannig þátt í því.

Ég er hins vegar á því að 16 ára ungmenni, eins og ég sagði áðan, séu bara orðin það félagslega meðvituð, samfélagslega meðvituð og það vel upplýst, að þau geti tekið þátt einmitt í þeirri samfélagslegu skyldu sinni, að þau geti með ábyrgum hætti farið með þau réttindi sín.

Hins vegar er ég alveg sammála hv. þingmanni að mismunurinn á öllum þessum aldurstengdu réttindum er að mörgu leyti órökréttur. En við erum kannski ekki að fást við það akkúrat hér og nú. Við erum að fást við það akkúrat hér og nú hvort færa megi kosningarréttinn í sveitarstjórnarkosningum niður til 16 ára aldurs, en sveitarstjórnirnar hafa meira með nærsamfélagið að gera. (Forseti hringir.) Ég svara þessu kannski ítarlegar í næsta svari.